Umsóknir

Sýningarstyrkir

Um sýningarstyrki

Sýningarstyrkir (áður miðastyrkir) hafa verið veittir til kvikmynda á íslensku sem sýndar hafa verið á almennum sýningum í kvikmyndahúsum frá árinu 2012. 

Til kvikmynda teljast þær sem eru að lágmarki 70 mínútur í sýningu. Með kvikmynd á íslensku er átt við að frumgerð kvikmyndar sem sýnd hefur verið á almennum sýningum í kvikmyndahúsi á Íslandi sé með íslensku tali, svo nemi meira en helmingi talmáls. Talsettar eða textaðar myndir eru því ekki gjaldgengar.

Framleiðslufyrirtæki sem ber ábyrgð á gerð og fjármögnun kvikmyndar getur sótt um sýningarstyrk. Sé um samframleiðsluverkefni að ræða skal umsókn lögð fram í nafni aðalframleiðanda, eða aðila sem hann veitir til þess umboð.

Lög og reglugerð um sýningarstyrki

Í 3. mgr. 6. gr. kvikmyndalaga nr. 137/2001 er Kvikmyndasjóði veitt heimild til að „veita sérstaka sýningarstyrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi í hlutfalli við heildarandvirði seldra aðgöngumiða að sýningum á viðkomandi kvikmynd.“ Reglugerð nr. 1349/2018 um styrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi tiltekur nánar hvernig standa skal að umsýslu og veitingu sýningarstyrkja.

Umsóknir um sýningarstyrki

Sótt er um sýningarstyrki á rafrænni umsóknargátt Kvikmyndamiðstöðvar:  umsokn.kvikmyndamidstod.is

Opnað er fyrir móttöku umsókna í janúar 2024 vegna sölutekna ársins 2023.

Umsóknir verða teknar fyrir um leið og þær berast. Að liðnum umsóknarfresti verða ekki veittir sýningarstyrkir til framleiðenda kvikmynda vegna þessara ára.

Leiðbeiningar um umsóknarferlið

Framleiðandi kvikmyndar sækir um sýningarstyrk fyrir tiltekna kvikmynd. Sýningarstyrkir eru reiknaðir út á ársgrundvelli.

Til þess að hljóta styrk þarf talmál frumgerðar kvikmyndar að vera íslenska og hún þarf að vera 70 mínútna löng að lágmarki.

Fjárhæð sýningarstyrks er 20% af sölutekjum aðgöngumiða á almennum sýningum í kvikmyndahúsum á Íslandi. Því er ekki heimilt að veita sýningarstyrki af ætluðu verðmæti boðsmiða eða hátíðarsýninga, heldur einvörðungu seldum aðgöngumuðum á almennum sýningum.

Umsækjendur þurfa að veita aðgang að upplýsingum um sölutekjur fyrir hvert ár fyrir sig, kostnaðaruppgjör kvikmyndar og aðra ríkisstyrki sem verkefnið hefur fengið.

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar um veitingu sýningarstyrkja má finna hér:

Upplýsingar um sýningarstyrki, leiðbeiningar og skýringar um meðferð og mat umsókna.