Um KMÍ
Á döfinni

13.1.2020

Hildur Guðnadóttir tilnefnd til Óskarsverðlaunanna

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir er tilnefnd til Óskarsverðlaunanna fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker, en tilnefningin er í flokknum besta frumsamda kvikmyndatónlistin. Óskarsverðlaunahátíðin mun fara fram sunnudaginn 9. febrúar. Allar tilnefningar er að finna á heimasíðu Óskarsverðlaunanna.

Alls eru fimm tónskáld tilnefnd fyrir bestu frumsömdu tónlist. Tónskáldin sem eru einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna og Hildur mun etja kappi við eru Alexandre Desplat fyrir Little Women, Randy Newman fyrir Marriage Story, Thomas Newman fyrir 1917 og John Williams fyrir Star Wars: The Rise of Skywalker

Hildur hefur nú þegar unnið til verðlauna samtaka kvikmyndagagnrýnenda (Critics' Choice Awards) og Golden Globe verðlaunanna fyrir tónlistina í myndinni auk þess sem hún er tilnefnd til BAFTA verðlaunanna.

Í september á síðasta ári vann Hildur til Emmy verðlaunanna í flokki frumsaminnar tónlistar fyrir tónlist sína í þáttaröðinni Chernobyl, og er hún jafnframt tilnefnd til Grammy-verðlaunanna fyrir sömu þáttaröð. Verðlaunaafhending Grammy-verðlaunanna mun fara fram þann 26. janúar í Los Angeles. 


© Antje Taiga Jandrig, Rune Kongsro