Um KMÍ
Á döfinni

11.12.2018

Jodie Foster endurgerir Kona fer í stríð

Óskarsverðlaunahafinn Jodie Foster mun koma til með að leikstýra, framleiða og leika aðalhlutverkið í enskri útgáfu á kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð. Foster mun túlka hlutverk Höllu, leikin af Halldóru Geirharðsdóttur, sem leikur kórstjóra á fimmtugsaldri sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn allri stóriðju í landinu. Hún gerist skemmdarverkamaður og er tilbúin til að fórna öllu fyrir móður jörð og hálendi Íslands, þar til munaðarlaus stúlka stígur inn í líf hennar.

Jodie Foster segir í samtali við Deadline: „Þessi mynd hreyfði meira við mér en orð fá lýst. Ég er svo spennt að búa til nýja ameríska útgáfu af þessari mikilvægu, fallegu og áhrifaríku sögu.“

Kona fer í stríð mun vera fimmta myndin sem Jodie Foster leikstýrir  en hún segir að nýja útgáfan muni gerast í Bandaríkjunum en ekki á Íslandi. Hún segist ekki geta tjáð sig um nánari tímasetningar varðandi myndina en mikill heiður sé fólginn í því að taka við af Benedikt Erlingssyni og meðframleiðanda hans Marianne Slot.

Kona fer í stríð vann nýverið til LUX verðlauna Evrópuþingsins og  Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Hún hefur nú unnið til alls 16 alþjóðlegra verðlauna síðan hún var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, þar sem hún hlaut fjögur verðlaun.

Myndin er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári og Halldóra Geirharðsdóttir hlaut nýverið tilnefningu sem Besta evrópska leikkonan á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum.

Með sölu og dreifingu erlendis fer sölufyrirtækið Beta Cinema (thorsten.ritter@betacinema.com).