Um KMÍ
Á döfinni

5.11.2018

Kona fer í stríð vann fern verðlaun í Lübeck – Sumarbörn vann ein verðlaun

Kona fer í stríð, kvikmynd Benedikts Erlingssonar, vann fern verðlaun á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi, þar á meðal aðalverðlaun hátíðarinnar fyrir bestu kvikmynd. Sumarbörn, kvikmynd Guðrúnar Ragnarsdóttur, vann ein verðlaun, fyrir bestu barna- og unglingamynd.

Auk þess að vinna til aðalverðlauna hátíðarinnar vann Kona fer í stríð til áhorfendaverðlauna hátíðarinnar, Interfilm kirkju verðlauna hátíðarinnar og verðlauna frá baltneskri dómnefnd hátíðarinnar fyrir framúrskarandi norræna kvikmynd. Juan Camillo Roman Estrada, einn af aukaleikurum myndarinnar, var viðstaddur hátíðina og tók við verðlaununum fyrir hönd aðstandenda.

Kona fer í stríð vann nýverið til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og hefur nú unnið til samtals 13 alþjóðlegra verðlauna.

Sumarbörn hefur nú unnið til þrennra alþjóðlegra verðlauna, ásamt því að hafa unnið til Edduverðlauna fyrir besta barna- og unglingaefni í febrúar síðastliðnum. Myndin var heimsfrumsýnd á hinni virtu Tallinn Black Nights kvikmyndahátíð í Eistlandi í lok síðasta árs og hefur ferðast víða síðan, til dæmis Hollands, Tékklands, Litháen og Írans. Í Noregi fór myndin í almenna dreifingu og var sýnd í flestum borgum landsins.

Hér má finna rökstuðning dómnefnda vegna verðlaunanna fimm sem íslensku kvikmyndirnar unnu til.