Um KMÍ
Á döfinni

2.10.2019

Meistaraspjall með Claire Denis á RIFF

Meistaraspjall með hinum nafntogaða franska kvikmyndaleikstjóra og höfundi Claire Denis fer fram fimmtudaginn 3. október kl 11:00 í Norræna húsinu. Claire er heiðursgestur RIFF í ár og viðtakandi verðlauna fyrir framúrskarandi listræna sýn. Auður Ava Ólafsdóttir, rithöfundur, ræðir við hana.

Claire Denis fæddist í París árið 1946. Hún ólst hins vegar upp í frönskum nýlendum Vestur-Afríku, þar sem foreldrar hennar störfuðu. Æskuárin höfðu mjög mótandi áhrif á verk hennar, líkt og sjá má í hennar fyrstu mynd, Chocolat (1988), sem fjallar á persónulegan hátt um franska konu sem snýr aftur á æskuslóðir í Kamerún. Myndin var valin til þátttöku á kvikmyndahátíðinni í Cannes og þótti framúrskarandi frumraun. Á farsælum ferli sínum hefur Denis sent frá sér þrettán myndir í fullri lengd og teljast margar þeirra til sígildra verka listabíósins. Hennar þekktasta mynd er líkast til Beau Travail frá 1999, sem af mörgum er talin besta mynd tíunda áratugarins. Nýjasta mynd hennar, High Life, fékk ljómandi viðtökur um allan heim og hlaut meðal annars hin virtu FIPRESCI verðlaun á San Sebastián kvikmyndahátíðinni 2018. 

Í myndum sínum tekst Claire Denis með áhrifamiklum hætti á við útskúfun, innflytjendamál, eyðingarmátt nýlendustefnunnar og leyndardóma ástarinnar. Hún er stórkostlegur listamaður sem sannar með hverju verki að hún er einn magnaðasti leikstjóri samtímans. 

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu RIFF.