Um KMÍ
Á döfinni

12.4.2019

Ragna Fossberg nýr heiðursfélagi WIFT samtakanna

Ragna Fossberg er flestum Íslendingum kunn enda á hún heiðurinn af
gervahönnun margra af ástsælustu persónum íslenskrar  sjónvarpssögu. Ragna hóf störf á Ríkissjónvarpinu (nú RÚV) árið 1971 og starfaði þar til ársins 2018. Einnig hefur Ragna starfað við fjölda leikinna kvikmynda, jafnt innlendar sem erlendar. Hún hefur unnið til 7 Edduverðlauna fyrir starf sitt auk þess sem hún hlaut heiðursverðlaun Eddunnar árið 2016. Því fer fjarri að Ragna sé hætt í bransanum og framundan eru skemmtileg og krefjandi verkefni. 

WIFT eru alþjóðleg samtök kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi og hefur Íslandsdeild samtakanna unnið ötult starf á undanförnum árum, starf sem farið er að bera ríkulegan ávöxt. Félagið telur nú rúmlega 170 virka meðlimi úr öllum stöðum kvikmynda- og sjónvarpsgerðar og stendur m.a. fyrir námskeiðum, fyrirlestrum og samkomum félagskvenna. Eitt af markmiðum félagsins er að auka sýnileika og samstöðu kvenna með það að leiðarljósi að bæta og jafna starfsumhverfið og það kvikmynda og sjónvarpsefni sem framleitt er.