Um KMÍ
Á döfinni

4.9.2017

Reykjavík verðlaunuð í Búlgaríu

Reykjavík, kvikmynd Ásgríms Sverrissonar, hlaut verðlaun gagnrýnenda á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Love is Folly í Varna í Búlgaríu um nýliðna helgi. Hátíðin fór fram frá 25. ágúst til 3. september.

Ásgrímur Sverrisson leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar var viðstaddur hátíðina og veitti verðlaununum viðtöku. Um er að ræða fyrstu alþjóðlegu verðlaun myndarinnar.

Reykjavík er dramatísk kómedía um sambönd og samskipti sem gerist í samtímanum. Samband Hrings við Elsu hangir á bláþræði. Þau og ung dóttir þeirra hafa fundið draumahúsið sitt en plönin fara úr skorðum og Elsa vill endurskoða allt. Meðan Hringur reynir að átta sig á hvað fór úrskeiðis og hvort þau geti borið saman brotin, flækist hann inní óuppgerð fortíðarmál Tolla besta vinar síns með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.