Um KMÍ
Á döfinni

20.10.2020

Þorsti vann tvenn verðlaun á hryllingsmyndahátíðinni Screamfest

Kvikmyndin Þorsti, í leikstjórn Gauks Úlfarssonar og Steinda Jr., vann til tvennra verðlauna á bandarísku hryllingsmyndahátíðinni Screamfest, sem fór fram dagana 6. - 15. október í Los Angeles. Bæði verðlaunin voru fyrir brellur þar sem Geir Njarðarson fékk verðlaun fyrir brelluförðun (special effects make up) og Atli Þór Einarsson fékk verðlaun fyrir sjónrænar brellur (visual effects).

Screamfest er stærsta og elsta hryllingsmyndahátíð í Bandaríkjunum og vel þekkt sem slík. Þar eru til sýnis nýjar hryllingsmyndir, bæði bandarískar og alþjóðlegar.

Kvikmyndin Þorsti gerist í litlum bæ, ekki ólíkum Reykjavík þar sem óöld liggur í loftinu og undarlegir glæpir og hrottaskapur virðast vera daglegt brauð. Myndin Fjallar um Huldu sem er grunuð um að hafa orðið valdur að andláti bróður síns og er því til rannsóknar hjá Jens rannsóknarlögreglu. Móðir Huldu, sem skolar niður pillum með bláum Smirnoff á morgnana trúir því einnig að hún hafi orðið bróður sínum að bana. Eftir að hafa verið sleppt úr varðhaldi vegna ónógra sannana hefur hún í engin hús að venda og þvælist um þar til hún rekst á Hjört, mörg þúsund ára gamla, einmanna og samkynhneigða vampíru sem hjálpar henni að vekja Steinda bróður hennar til lífs aftur með hræðilegum afleiðingum á sama tíma og þau þurfa að verjast ágangi Esterar og Birgittu og sértrúarsöfnuði þeirra, sem virðist elta þau á röndum.

Þorsti var frumsýnd á Íslandi í október á síðasta ári og er myndin er unnin í samstarfi við áhugamannaleikhópinn X og Hjört Sævar Steinason. Ásamt Hirti fara þau Hulda Lind Kristinsdóttir, Jens Jensson, Ester Sveinbjarnardóttir, Birgitta Sigursteinsdóttir og Birna Halldórsdóttir með helstu hlutverk. Með alþjóðlega sölu og dreifingu kvikmyndarinnar fer LevelK.