Um KMÍ
Á döfinni
  • Viktoria-adalstilla
  • Toplantaflag_01

4.9.2018

Toronto kvikmyndahátíðin hefst 6. september – fjórar íslenskar kvikmyndir sýndar

Lof mér að falla, kvikmynd Baldvins Z, verður heimsfrumsýnd á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Toronto þann 6. september næstkomandi. Myndin verður sýnd í Contemporary World Cinema hluta hátíðarinnar að viðstöddum helstu aðstandendum myndarinnar; þar á meðal eru Baldvin Z leikstjóri, leikararnir Elín Sif Halldórsdóttir, Eyrún Björk Jakobsdóttir, Þorsteinn Bachmann, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Lára Jóhanna Jónsdóttir og framleiðendurnir Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson.

Lof mér að falla - stikla

Lof mér að falla verður frumsýnd hérlendis þann 7. september.

Kona fer í stríð, kvikmynd Benedikts Erlingssonar, heldur áfram ferðalagi sínu um kvikmyndahátíðir heimsins og hefur sömuleiðis verið valin til þátttöku á hátíðinni. Þar verður hún sýnd í Discovery hluta hátíðarinnar. Um Norður Ameríku frumsýningu myndarinnar er að ræða. Nýlega var myndin tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og skömmu áður var hún tilnefnd til LUX verðlauna Evrópuþingsins.

Kona fer í stríð - stikla

Kona fer í stríð er ennþá í sýningum í Bíó Paradís, þar sem hún er sýnd með enskum texta.

Þá verður Viktoría, stuttmynd eftir Brúsa Ólason, sýnd í Short Cuts hluta Toronto kvikmyndahátíðarinnar, þar sem hún verður frumsýnd alþjóðlega þann 9. september.

To Plant a Flag, norsk/íslensk stuttmynd eftir Bobbie Peers, verður sömuleiðis sýnd í Short Cuts hluta hátíðarinnar, þar sem hún verður heimsfrumsýnd þann 8. september.

Hátíðin fer fram frá 6. - 16. september.

Kvikmyndamiðstöð Íslands er með aðstöðu á Toronto kvikmyndahátíðinni í samstarfi við Scandinavian Films.