Um KMÍ
Á döfinni

6.5.2019

Verðlaunahátíð ungra áhorfenda fór fram í annað sinn hér á landi þann 5. maí 2019

Verðlaunahátíð ungra áhorfenda eða EFA Young Audience award var sett á koppinn árið 2013 fyrir tilstilli European Film Academy. Að þessu sinni fór kvikmyndahátíðin af stað á sama tíma í 34 löndum og  í 55 borgum. Krakkar á aldrinum 12 – 14 ára víðsvegar um Evrópu horfðu á þrjár myndir og mynduðu dómnefnd sem valdi bestu myndina sem var að þessu sinni hollenska myndin Fight Girl eftir Johan Timmers.

15 krakkar tóku þátt fyrir Íslands hönd og fannst íslensku dómnefndinni Los Bando eftir Christian Lo vera besta myndin en í öðru sæti var Fight Girl og í þriðja sæti Old Boys eftir Toby MacDonald. Fight Girl hreppti þó verðlaunin fyrir bestu myndina yfir allt og Los Bando var í öðru sæti en Old Boys í því þriðja.

Leikstjórarnir Baltasar Kormákur, Ása Helga Hjörleifsdóttir og leikkonan og handritshöfundurinn Ilmur Kristjánsdóttir stýrðu umræðum eftir myndirnar ásamt kvikmyndafræðingnum Oddnýju Sen og Erlu Stefánsdóttur.

Hátíðinni lauk með beinni útsendingu frá verðlaunaafhendingunni sem fór fram í Efurt í Þýskalandi og var streymt á heimasíðu YAA .

Kvikmyndamiðstöð Íslands ásamt Bíó Paradís þakkar þátttakendunum og dómnefnd fyrir fagleg og góð störf. 

Logos