Um KMÍ
Á döfinni

23.5.2018

Kona fer í stríð frumsýnd á Íslandi

Kona fer í stríð, önnur kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Benedikts Erlingssonar í fullri lengd, verður frumsýnd í íslenskum kvikmyndahúsum þann 23. maí. Myndin verður sýnd í Háskólabíói, Smárabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói á Akureyri. Þann 22. maí var hún forsýnd í Háskólabíói og hlaut frábærar viðtökur viðstaddra.

Kona fer í stríð var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, þann 12. maí sl., þar sem Benedikt Erlingsson og Ólafur Egill Egilsson unnu til SACD verðlaunanna fyrir besta handrit og myndin vann Gyllta lestarteininn (Rail d‘Or) fyrir bestu mynd að mati lestarstarfsmanna sem sækja Critics‘ Week.

Kona fer í stríð segir frá kórstjóra á fimmtugsaldri sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn allri stóriðju í landinu. Hún gerist skemmdarverkamaður og er tilbúin til að fórna öllu fyrir móður jörð og hálendi Íslands, þar til munaðarlaus stúlka stígur inn í líf hennar. Að bjarga einu barni eða að bjarga heiminum?

Myndin hefur hlotið góða dóma í hinum ýmsu virtu kvikmyndatímaritum og hefur frammistaða aðalleikkonu myndarinnar, Halldóru Geirharðsdóttur, fengið sérstakt lof. 

Kona fer í stríð, sem er íslensk/frönsk/úkraínsk samframleiðsla er framleidd af Marianne Slot, Benedikt Erlingssyni og Carine Leblanc og meðframleidd af Serge Lavrenyuk, Bergsteini Björgúlfssyni og Birgittu Björnsdóttur. Með aðalhlutverk fara auk Halldóru, Davíð Þór Jónsson, Magnús Trygvason Eliassen ,Ómar Guðjónsson og Jóhann Sigurðarson. Bergsteinn Björgúlfsson sér um stjórn kvikmyndatöku, Davíð Alexander Corno klippir myndina og Davíð Þór Jónsson semur tónlist myndarinnar.

Kona fer í stríð - stikla