2,9 milljarðar í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á árinu 2023
Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hérlendis numu 2,9 milljörðum króna á árinu 2023.
Verkefni sem nutu endurgreiðslu voru 87 og velta þeirra hérlendis nam 11,2 milljörðum króna. Gjaldeyristekjur vegna erlendrar fjármögnunar þeirra numu 4,3 milljörðum.
Taflan að neðan gefur yfirlit yfir fjölda verkefna og fjárhæð endurgreiðslna á árinu í milljónum króna:
Endurgreiðslur ársins 2023 - fjárhæðir í milljónum króna
Fjöldi verkefna | Velta hérlendis | Erlend fjármögnun | Endurgreiðsla | |
---|---|---|---|---|
Innlend | 71 | 8.487 | 2.307 | 2.133 |
Erlend | 16 | 2.716 | 2.008 | 735 |
87 | 11.203 | 4.315 | 2.868 |
Sé litið til innlendra verkefna má sjá að endurgreiðslur námu 2,1 milljörðum króna, en fjármögnun þeirra erlendis frá nam hærri fjárhæð. Þar getur til dæmis verið um að ræða framlag erlendra sjóða í tilviki framleiðslu kvikmynda eða fyrirframgreidds söluréttar vegna verkefna sem rennur til framleiðslunnar.
Erlend verkefni eru yfirleitt alfarið fjármögnuð af erlendum aðilum, að frátöldu framlagi endurgreiðslukerfisins.
Verkefnið True Detective sem hefur verið í opinberri umræðu sem stærsta kvikmyndaverkefni sem staðið hefur verið fyrir hérlendis hefur ekki fengið endurgreiðslu, en tökum vegna þess lauk á árinu 2023. Velta vegna þess verkefnis er þó þegar framkomin í hagkerfinu og að fullu greidd af erlendum aðilum. Unnið er að uppgjöri verkefnisins og endurgreiðslan verður gerð upp þegar fjárhagsuppgjör og umsókn um útborgun liggur fyrir.
Sjá yfirlit verkefna sem hafa hlotið endurgreiðslu 2023 hér: