Um KMÍ
Á döfinni

22.8.2023

Á ferð með mömmu tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs

Kvikmyndin Á ferð með mömmu, eftir Hilmar Oddsson er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs

Sex norrænar kvikmyndir eru tilnefndar til verðlaunanna og í fyrsta sinn í sögu þeirra er grænlensk kvikmynd tilnefnd. Kvikmyndirnar sem tilnefndar eru verða kynntar við opnun viðburðarins „New Nordic Films“ á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi í Noregi.

Verðlaunahafinn verður kynntur á verðlaunaafhendingu í Ósló í október. Frá árinu 2002 hafa kvikmyndaverðlaunin verið veitt kvikmyndum í fullri lengd sem eiga rætur í norrænni menningu og hafa mikið listrænt gildi.

Á ferð með mömmu segir frá Jóni, rúmlega fimmtugum piparsveini, sem býr með móður sinni á afskekktum og einangruðum bæ á Vestfjörðum. Þegar móðirin deyr þarf Jón að standa við loforð sem hann gaf henni um hinstu hvílu á æskuslóðum og tekur sér ferð á hendur með uppáklætt líkið í aftursætinu.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að í myndinni nýti leikstjórinn og handritshöfundurinn Hilmar Oddsson klassískt form vegamyndarinnar á árangursríkan hátt til að lýsa innra ferðalagi aðalpersónunnar, Jóns:

„Í þeirri ferð neyðist Jón til að horfast í augu bæði við litleysi eigin fortíðar og það líf sem hann fór á mis við. Sú aðferð að hafa myndina í svarthvítu hentar efninu vel og endurspeglar grámann í Jóni sjálfum um leið og hún skapar þá upplifun að hér sé á ferðinni nokkur konar fabúla fremur en fullkomlega raunsæ frásögn. Þessi speglun á innra lífi aðalpersónunnar og hvernig það þróast er svo undirstrikuð og efld með landslaginu sem Jón ekur um á leið sinni.“

Enn fremur segir að Hilmar hafi, sem margreyndur leikstjóri, augljóslega alla þætti kvikmyndalistarinnar á valdi sínu: „Honum tekst að segja sögu um mannlegan harmleik, með hlýju og húmor, oft án orða þar sem hann nýtir sér myndræna frásögn á einkar fallegan hátt, ásamt sérlega vel útfærðri tónlist.

Rökstuðning dómnefndarinnar ásamt frekari upplýsingum um kvikmyndina má finna á vef Norðurlandaráðs.

Eftirtaldar kvikmyndir eru tilnefndar til verðlaunanna í ár:

  • Danmörk – Viften (leikstjóri: Frederikke Aspökk ; handritshöfundur: Anna Neye ; framleiðandi: Meta Louise Foldager Sørensen).
  • Ísland – Á ferð með mömmu (handritshöfundur og leikstjóri: Hilmar Oddsson ; framleiðandi: Hlín Jóhannesdóttir).
  • Finnland – Kupla (handritshöfundur:Reeta Ruotsalainen ; leikstjóri og handritshöfundur: Aleksi Salmenperä ; framleiðandi: Minna Haapkylä).
  • Grænland – Alanngut Killinganni (handritshöfundur og leikstjóri: Malik Kleist ; framleiðandi: Nina Paninnguaq Skydsbjerg).
  • Noregur – Krigsseileren (handritshöfundur og leikstjóri: Gunnar Vikene ; Framleiðandi: Maria Ekerhovd).
  • Svíþjóð – Motståndaren (handritshöfundur og leikstjóri: Milad Alami ; framleiðandi: Annika Rogell).