Á ferð með mömmu heimsfrumsýnd á Tallinn Black Nights hátíðinni
Kvikmynd Hilmars Oddssonar, Á ferð með mömmu, verður heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni Tallinn Black Nights (PÖFF) sem fram fer 11.-27. nóvember.
Þetta er í 26. sinn sem hátíðin fer fram. Kvikmynd Hilmars er sýnd í aðaldagskrá hátíðarinnar, hún er á meðal 7 fyrstu myndanna sem kynntar voru og keppir um verðlaun. Dagskráin í heild verður kynnt eftir því sem nær dregur hátíðinni.
Með aðalhlutverk í myndinni fara Þröstur Leó Gunnarsson, Kristbjörg Kjeld, Tómas Lemarquis og Hera Hilmars.
Þegar móðir Jóns og hans mesti áhrifavaldur fellur frá verða alger umskipti í lífi hans. Með uppáklætt líkið í aftursætinu og hundinn Brésnef við hlið sér tekst hann á hendur ferð þvert yfir landið til að heiðra hennar síðustu ósk. En mamma hefur ekki sagt sitt síðasta.