Ævintýri Tulipop seld til Ítalíu og Frakklands
Tulipop Studios hefur samið við ríkissjónvarpstöðvarnar Rai á Ítalíu og TF1 í Frakklandi um sýningar á íslensku 52 þátta teiknimyndaröðinni Ævintýri Tulipop.
Í fréttatilkynningu segir að þetta sé tímamótasamningur fyrir félagið. Um sé að ræða virtar sjónvarpsstöðvar með markaðsráðandi stöðu á sínum svæðum, sem verði til þess að hinn íslenski ævintýraheimur Túlípop verði innan skamms þekktur meðal barna og fjölskyldna á Ítalíu og í Frakklandi.
Sjónvarpsstöðvarnar bætast í ört stækkandi hóp stöðva um heim allan sem sýna þáttaröðina Ævintýri Tulipop. Þáttaröðin hefur nú verið talsett á átta tungumál, meðal annars á pólsku, norsku, finnsku, arabísku og frönsku, og er komin í sýningar á YLE í Finnlandi, MBC í Mið-Austurlöndum, Canal+ í Póllandi, Tele-Québec í Kanada, Cartoonito í Bretlandi og Showmax í Suður-Afríku.
Þáttaröðinni hefur verið vel tekið, en hún er til dæmis ein af fimm vinsælustu þáttaröðunum fyrir börn hjá Canal+ í Póllandi og meðal vinsælustu þáttaraðanna hjá NRK í Noregi.
„Það eru risastór tímamót að fá Rai og TF1 í hóp þeirra sjónvarpsstöðva sem bjóða börnum að horfa á Ævintýri Tulipop,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop og framleiðandi þáttaraðarinnar. „Það er mikill gæðastimpill fyrir okkar teiknimyndaframleiðsluverkefni auk þess sem að samningarnir opna stóra möguleika varðandi frekari vöxt Tulipop vörumerkisins á þessum mikilvægu evrópsku mörkuðum. Við hlökkum til að færa enn fleiri krökkum um allan heim Ævintýri Tulipop sem eru full af fjölbreyttum karakterum, grípandi tónlist og jákvæðum boðskap.“
Þáttaröðunum hefur vegnað vel á Íslandi, þar sem þær eru aðgengilegar í Sjónvarpi Símans Premium.
Ævintýri Tulipop er skrifuð af íslenskum og erlendum handritshöfundum undir stjórn yfirhandritshöfundanna Sara Daddy og Emmu Boucher, sem hafa áður verið yfirhandritahöfundar fyrir Disney og BBC. Þá var Natascha Crandall, sálfræðingur, í hlutverki ráðgjafa hvað varðar uppseldisleg- og menningarleg skilaboð þáttaraðarinnar, en Natascha hefur áður unnið fyrir fyrirtæki á borð við Dreamworks og Nick Jr.
Markmið Tulipop er að framleiða teiknimyndir sem eru bæði vandaðar og skemmtilegar, og miðla jákvæðum skilaboðum til barna um vináttuna, fjölbreytileikann og náttúruna.