Áformaskjal um framlengingu á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi í samráðsgátt
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra hefur birt áformaskjal í Samráðsgátt stjórnvalda um framlengingu á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.
Áformaskjalið má nálgast í samráðsgátt.
Í tilkynningu segir:
„Að óbreyttu fellur endurgreiðslukerfið niður um næstu áramót en til að koma í veg fyrir rof á kvikmyndaframleiðslu er lagt til að kerfið verði framlengt um þrjú ár, með fáeinum breytingum.
Samhliða framlengingu kerfisins verður ráðist í greiningu á ýmsum atriðum sem athugasemdir hafa verið gerðar við, með það fyrir augum að kynna frekari breytingar á endurgreiðslukerfinu næsta vor.
Frumvarpinu er ætlað að skýra betur skilyrði fyrir endurgreiðslu til að auka fyrirsjáanleika og skilvirkni kerfisins fyrir umsækjendur, umsýsluaðila og ríkissjóð.
Að sama skapi er markmið lagabreytinganna að viðhalda þeirri samkeppnishæfni sem Ísland hefur náð á alþjóðavettvangi kvikmyndagerðar með því að fá stór erlend kvikmyndaverkefni til landsins. Úttektir á íslenska endurgreiðslukerfinu undanfarin ár hafa gefið til kynna að einfaldleiki og skilvirkni kerfisins sé styrkleiki í alþjóðlegum samanburði. Reynslan af kerfinu og samanburður við önnur sambærileg kerfi gefi þó til kynna að tækifæri séu til úrbóta.
Sem fyrr segir er lagt til að endurgreiðslukerfið verði framlengt með fáeinum breytingum á þessu stigi, en að frekari breytingar á því verði kynntar vorið 2026 að lokinni nánari greiningarvinnu.“