Agnes Johansen kvikmyndaframleiðandi er látin
Agnes Johansen kvikmyndaframleiðandi er látin 66 ára að aldri. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Reykjavík sunnudaginn 18. maí. Aðstandendur Agnesar greindu frá andláti hennar í tilkynningu.
Agnes var mikilvirkur framleiðandi og kom að gerð fjölda íslenskra og alþjóðlegra kvikmynda og sjónvarpsverkefna á yfirgripsmiklum ferli. Hún starfaði við kvikmyndagerð allt til æviloka.
Á níunda áratugnum starfaði hún við gerð barnaefnis í sjónvarpi. Hún stjórnaði Stundinni okkar á RÚV og sá um allt barnasjónvarpsefni Stöðvar 2 um langt skeið. Um miðjan 10. áratuginn hóf hún störf hjá Sagafilm, þar sem hún kom að ýmsum verkefnum þar til samstarf hennar og Baltasars Kormáks hófst árið 2001 hjá fyrirtækinu Sögn. Þar kom hún að framleiðslu annarrar kvikmyndar Baltasars, Hafið. Hjá Sögn framleiddi hún kvikmyndirnar A Little Trip to Heaven (2005), Mýrina (2006), Reykjavík-Rotterdam (2008), Brúðgumann (2009) og Djúpið (2012). Þá framleiddi hún einnig kvikmyndina Dís (2004) í leikstjórn Silju Hauksdóttur.
Við stofnun RVK Studios árið 2012 varð Agnes einn af lykilframleiðendum fyrirtækisins. Meðal verkefna hennar þar voru kvikmyndirnar Fúsi (2015) og Against the Ice (2022), sem og þáttaröðin Katla (2021). Hún var einnig yfirframleiðandi Eiðsins (2016) og allra þriggja þáttaraða Ófærðar (2015–2021). Síðasta kvikmyndaverkefni hennar var Snerting (2024).
Agnes lætur eftir sig tvær dætur og fjögur barnabörn. Fjölskyldu og aðstandendum Agnesar eru færðar innilegar samúðarkveðjur.