Áhorfendavika Lux verðlauna Evrópuþingsins – kosning á tilnefndum myndum opin til 23. maí
Áhorfendavika Lux verðlauna Evrópuþingsins fer fram dagana 10. – 16. maí þar sem evrópskum áhorfendum gefst tækifæri til að horfa á og kjósa um tilnefndar myndir. Þá verður Q&A með leikstjórum tilnefndra mynda í lifandi streymi á Facebook síðu Lux verðlaunanna föstudaginn 14. maí.
Hér má sjá lista yfir þau lönd sem býðst að horfa á myndirnar í streymi ásamt upplýsingum um það hvernig áhorfendakosning fer fram.
Eftirfarandi þrjár myndir eru tilnefndar til verðlaunanna, en verðlaunaafhending mun fara fram ann 9. júní í Strassborg.
Another Round (Druk) - Leikstjóri: Thomas Vinterberg
Kvikmyndin hlaut Óskarsverðlaunin 2021 sem besta erlenda mynd ársins og er hún nú í sýningum í Bíó Paradís.
Fjórir vinir, sem allir eru menntaskólakennarar, ákveða að sannreyna kenninguna um að þeim muni ganga betur í lífinu ef þeir eru alltaf með örlítið áfengismagn í blóðinu. Þessi tilraun á eftir að hafa óvæntar afleiðingar og sýna þeim félögum nýjar hliðar á sjálfum sér sem þeir áttu kannski ekki von á.
Collective (Colectiv) - Leikstjóri: Alexander Nanau
Myndin var valin besta heimildamyndin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum árið 2020 og var m.a. sýnd á sérstakri vetrardagskrá RIFF (Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík) í desember 2020.
Rannsóknarblaðamaður afhjúpar stóra svikamylllu í rúmverska heilbrigðiskerfinu. Þetta er mynd um vald spilling og lygar í innsta hring.
Corpus Christi (Boże Ciało) - Leikstjóri: Jan Komasa
Kvikmyndin var sýnd í árslok 2019 í Bíó Paradís og var m.a. framlag Póllands til Óskarsverðlaunanna, en myndin hefur hlotið fjölda alþjóðlegra kvikmyndaverðlauna síðan hún var frumsýnd.
Hér er sögð saga hins tvítuga Daníels, sem verður fyrir trúarlegri vakningu þegar hann dvelur í unglingafangelsi. Hann vill verða prestur en sakaferill hans kemur í veg fyrir það. Þegar hann er sendur til að starfa á trésmíðaverkstæði í litlum bæ mætir hann á svæðið í prestshempu og tekur af slysni við söfnuðinum.