Um KMÍ
Á döfinni

29.4.2025

Alessandra Celesia heiðursgestur Skjaldborgar 2025

Heimildamyndahátíðin Skjaldborg á Patreksfirði nálgast. Á hátíðinni, sem fer fram hvítasunnuhelgina 6.-9. júní, verður fjöldi nýrra heimildamynda sýndar. Auk þess fara fram ýmsir viðburðir, svo sem skrúðganga, plokkfisksveisla og limbókeppni.

Skjaldborg er kraftmikil uppskeruhátíð og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma þar saman í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.

Heiðursgestur Skjaldborgar 2025 er ítalska kvikmyndagerðarkonan Alessandra Celesia. 

Alessandra býr jöfnum höndum í París og Belfast og hefur stundað heimildamyndagerð á Norður-Írlandi sem og í heimalandinu Ítalíu. Hún er menntuð í bókmenntum og leiklist og hóf feril sinn í sviðslistum áður en hún sneri sér að heimildamyndagerð. Alessandra heldur fyrirlestur laugardaginn 7.júní að lokinni sýningu á verðlaunamynd sinni The Flats (Íbúðirnar). Myndin hefur ferðast hátíðahringinn frá því snemma árs 2024 og vann meðal annars aðalverðlaunin á CPH:DOX 2024 og IFTA, írsku kvikmyndaakademíuverðlaunin, fyrir heimildamynd ársins.

Dagskrá Skjaldborgar hefur einnig verið opinberuð, en þar verður boðið upp á frumsýningar á fimm verkum í fullri lengd auk átta heimildastuttmynda. Einnig verða fimm verk í vinnslu kynnt. 

Hægt er að kynna sér dagskrá Skjaldborgar 2025 á vef hátíðarinnar.