Um KMÍ
Á döfinni

11.5.2023

Álfrún Örnólfsdóttir á meðal „framúrskarandi evrópskra kvikmyndagerðarkvenna“ á kvikmyndahátíðinni í Sydney

Kvikmynd Álfrúnar Örnólfsdóttur, Band, er á meðal 10 mynda sem vakin verður sérstök athygli á í sýningarröðinni „Europe! Voices of Women in Film“ á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Sydney í sumar.

Ætlunin er að færa kastljósið á framúrskarandi evrópskar kvikmyndagerðarkonur, en það er European Film Promotion sem stendur fyrir valinu í samvinnu við Sydney Film Festival, með stuðningi frá Creative Europe.

„Við erum sannfærð um að myndirnar muni verða áströlskum áhorfendum innblástur og hvetji til samtals um málefni líðandi stundar sem brenna á öllum, þvert á landamæri,“ segir Sonja Heinen, stjórnandi hjá EFP í fréttatilkynningu.

Hátíðin fer fram 7.-18. júní 2023.

Band var heimsfrumsýnd á Hot Docs í Toronto 2022, einni virtustu heimildamyndahátíð heims. Hún hefur síðan ferðast á milli alþjóðlegra kvikmyndahátíða og gerður góður rómur að. Myndin er meiksaga gjörningahljómsveitarinnar The Post Performance Blues Band, sem ákveður að gefa sér eitt ár til að gerast poppstjörnur, ellegar pakka saman í hinsta sinn.