Um KMÍ
Á döfinni

17.8.2021

Alma og Wolka sýndar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi

Tvær íslenskar kvikmyndir, Alma eftir Kristínu Jóhannesdóttur og Wolka eftir Árna Ólaf Ásgeirsson heitinn, verða sýndar sem hluti af „Nordic Focus“ dagskrá alþjóðlegu kvikmyndahátíðinnar í Haugasundi í Noregi. Þá verða tvö íslensk verkefni kynnt sem hluti af „Nordic coproduction market“ og fimm kvikmyndir sýndar á lokuðum markaðssýningum. Hátíðin fer fram dagana 21. til 27. ágúst.

Alma trailer

Alma er örlagagasaga ungrar konu sem er lokuð inni á réttargeðdeild eftir að hafa játað á sig morð á kærasta sínum án þess þó að muna eftir þeim atburði. Eftir sjö ár berast þær fréttir að kærastinn sé sprelllifandi og á leið til landsins. Hún ákveður að drepa hann þar sem hún er hvort sem er búin að afplána dóm fyrir glæpinn.

Alma er þriðja bíómynd Kristínar Jóhannesdóttur. Kristín skrifar handrit og leikstýrir. Guðrún Edda Þórhannesdóttir, Friðrik Þór Friðriksson og Egil Ødegård framleiða og með helstu hlutverk fara Snæfríður Ingvarsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Emmanuelle Riva og Hilmir Snær Guðnason.


Wolka trailer

Wolka fjallar um hina 32 ára Önnu sem fær reynslulausn úr fangelsi í heimalandi sínu Póllandi þar sem hún hefur afplánað 15 ára dóm fyrir morð. Frelsinu fegin ákveður Anna að fórna öllu með því að brjóta skilorð sitt og ferðast til Íslands þar sem hún þarf að horfast í augu við fortíð sína.

Wolka var síðasta kvikmynd Árna Ólafs Ásgeirssonar og er myndin íslensk/pólsk samframleiðsla. Íslenskir framleiðendur eru Hilmar Sigurðsson og Beggi Jónsson fyrir Sagafilm. Með helstu hlutverk fara Olga Bołądź, Eryk Lubos og Anna Moskal.


Tvö íslensk verkefni verða kynnt á New Nordic Films hluta hátíðarinnar sem hluti af dagskránni „Nordic coproduction market“. Þar gefst framleiðendum og/eða leikstjórum tækifæri til að kynna verkefni sín fyrir mögulegum meðframleiðendum, sölu- eða fjármögnunaraðilum. Íslensku verkefnin eru eftirfarandi:

Fjallið
Handritshöfundur/leikstjóri: Ásthildur Kjartansdóttir
Framleiðandi: Anna G. Magnúsdóttir
Meðframleiðandi: Ásthildur Kjartansdóttir

Jól Þóru 
Handritshöfundur: Solveig Sigmond Ræstad
Framleiðandi: Steinarr Logi Nesheim.
Meðframleiðandi: Guðný Guðjónsdóttir


Að auki verða Alma og Wolka sýndar á lokuðum markaðssýningum New Nordic Films markaðarins, ásamt kvikmyndunum Skjálfti eftir Tinnu Hrafnsdóttur, Þorpið í bakgarðinum eftir Martein Þórsson og Fanga eftir Max Gold

Allar nánari upplýsingar um kvikmyndahátíðina í Haugasundi má finna hér