Um KMÍ
Á döfinni

24.8.2021

Alma tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs

Kvikmyndin Alma eftir Kristínu Jóhannesdóttur­ er til­nefnd til Kvikmyndaverðlauna Norður­landaráðs fyrir hönd Íslands. Tilkynnt var um tilnefningarnar við opnum viðburðarins „New Nordic Films“ á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi.

Hinar fjórar myndirnar sem hljóta tilnefningar eru Flugt frá Danmörku eftir leikstjórann Jonas Poher Rasmussen, Ensilumi frá Finnlandi eftir leikstjórann Hamy Ramezan, Gunda frá Noregi eftir leikstjórann Victor Kossakovsky og Tigrar frá Svíþjóð eftir leikstjórann Ronnie Sandahl.

Alma trailer

Í rökstuðningi íslensku dómnefndar segir: „Líkt og allar hinar konurnar sem vistaðar hafa verið með henni á lokaðri glæpageðdeild hefur Alma verið dæmd fyrir morð á karlkyns maka sínum. Fyrir þessum konum stendur efnahagshrunið 2008 fyrir mögulegt hrun feðraveldisins, en í skjóli þess hefur konum verið misþyrmt, nauðgað og haldið niðri gegnum aldirnar án þess að þær hafi notið ávaxta þess kerfis á nokkurn hátt. Þessi líking rammar inn margslungna frásögnina með áhrifamiklum hætti.“

„Það sem hefst eins og hefndarsaga í anda noir-mynda verður að fallegri ástarsögu sem hverfist um vegferð þolanda ofbeldis gegnum áföll og sorg uns hún enduruppgötvar loks rætur sínar og eigin sérstöku rödd.“

„Með beittum húmor og sláandi myndmáli sameinar Alma með fimlegum hætti ákafa ljóðræna sýn og samfélagsgagnrýnið femínískt sjónarhorn.“

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs eru mjög eftirsótt verðlaun sem voru fyrst afhent árið 2002, en frá árinu 2005 hafa þau verið veitt árlega. Vinningshafinn verður tilkynntur við hátíðlega athöfn þann 2. nóvember í Kaupmannahöfn í tengslum við þing Norðurlandaráðs.

Alma er örlagagasaga ungrar konu sem er lokuð inni á réttargeðdeild eftir að hafa játað á sig morð á kærasta sínum án þess þó að muna eftir þeim atburði. Eftir sjö ár berast þær fréttir að kærastinn sé sprelllifandi og á leið til landsins. Hún ákveður að drepa hann þar sem hún er hvort sem er búin að afplána dóm fyrir glæpinn.

Alma er þriðja bíómynd Kristínar Jóhannesdóttur. Kristín skrifar handrit og leikstýrir. Guðrún Edda Þórhannesdóttir, Friðrik Þór Friðriksson og Egil Ødegård framleiða og með helstu hlutverk fara Snæfríður Ingvarsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Emmanuelle Riva og Hilmir Snær Guðnason.

Nánari upplýsingar um kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.