Um KMÍ
Á döfinni

27.10.2021

Alþjóðleg Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík fer fram frá 28. október – 7. nóvember

Alþjóðleg Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík verður haldin í Bíó Paradís í áttunda sinn dagana 28. október – 7. nóvember 2021. Hátíðin hefur fest sig í sessi sem árlegur menningarviðburður barna og unglinga. 

Þema hátíðarinnar í ár er hrekkjavaka og formleg dagskrá hefst fimmtudaginn 28. október kl. 17 í Bíó Paradís. Nauðsynlegt verður að skrá sig og hér er skráningar hlekkur. Opnunarmynd hátíðarinnar er Nellý Rapp – Skrímslaspæjari sem hentar börnum átta ára og eldri, talsett á íslensku. Myndin verður sýnd kl. 17:30 og ókeypis er inn á opnunarhátíðina.

Dagskráin í ár er fjölbreytt þar sem boðið er upp á barna- og unglingakvikmyndir sem henta öllum aldurshópum. Íslenska kvikmyndin Birta undir leikstjórn Braga Þórs Hinrikssonar verður frumsýnd á hátíðinni þann 4. nóvember og er hún jafnframt lokamynd hátíðarinnar.

Eins verður boðið upp á námskeiðið stelpur leika!, þar sem Nanna Kristín Magnúsdóttir, leikstjóri og leikkona, mun sjá um valdeflandi námskeið fyrir stúlkur á aldrinum 10-12 ára. Námskeiðið filmufjör! verður einnig í boði fyrir börn á aldrinum 7-10 ára sem hafa áhuga á kvikmyndagerð, hvernig  kvikmyndir verða til og hvernig þær voru gerðar í gamla daga.

Allar nánari upplýsingar um Alþjóðlega Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík má finna á heimasíðu Bíó Paradís