Um KMÍ
Á döfinni

5.2.2018

Andið eðlilega vinnur til FIPRESCI verðlauna í Gautaborg

Andið eðlilega vann um helgina til FIPRESCI verðlaunanna á Kvikmyndahátíðinni í Gautaborg. Verðlaunin eru veitt af FIPRESCI sem eru alþjóðleg samtök kvikmyndagagnrýnenda. 

Ísold Uggadóttir, leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar, var viðstödd hátíðina og veitti verðlaununum móttöku. Þetta eru önnur verðlaunin sem myndin vinnur til en Ísold var valin besti erlendi leikstjórinn á Sundance kvikmyndahátíðinni sem fór fram dagana 18. til 28. janúar. 

Fram kom í ummælum dómnefndar að myndin hlyti verðlaunin þar sem hún tæki á þeim erfiðu vandamálum sem tengjast fólksflótta í Evrópu og annars staðar í heiminum. Eins kom fram að myndin væri gamansöm á hugnæman máta. 

Skúli Fr. Malmquist framleiðir Andið eðlilega fyrir hönd Zik Zak kvikmynda, en meðframleiðendur eru þær Inga Lind Karlsdóttir, Lilja Ósk Snorradóttir og Birna Anna Björnsdóttir, auk meðframleiðenda frá Belgíu og Svíþjóð. 

Andið eðlilega verður frumsýnd á Íslandi 2. mars næstkomandi.

The Match Factory sér um sölu og dreifingu á heimsvísu.