Um KMÍ
Á döfinni

16.12.2022

Aníta Briem tilnefnd til handritaverðlauna Norðurlandanna

Sjónvarpsþáttaröðin Svo lengi sem við lifum er tilnefnd til handritaverðlauna Norðurlandanna 2023. Handritið er eftir Anítu Briem sem einnig fer með aðalhlutverkið í þáttunum. Leikstjóri er Katrín Björgvinsdóttir og framleiðandi er Arnbjörg Hafliðadóttir fyrir Glassriver.

Þættirnir segja frá Betu, sem eitt sinn var efnileg tónlistarkona, en finnur sig í ónýtu hjónabandi og líður eins og hún standi sig ekki í móðurhlutverkinu. Þegar ungur maður flytur inn á heimilið til að hjálpa með barnið og fer að leggja til „daður-verkefni“ fyrir hjónin, er Beta þvinguð til að taka áhættur og stíga aftur inn í lífið.

Stefnt er að því að þáttaröðin verði frumsýnd á þriðja ársfjórðungi 2023.

Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn (Nordisk Film & TV Fond) stendur að verðlaununum. Þau verða afhent á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg 1. febrúar 2023 og nemur verðlaunaféð 20.000 evrum. Gautaborgarhátíðin er stærsta kvikmyndahátíðin á Norðurlöndum og stendur frá 27. janúar til 5. febrúar 2023.

Gísli Örn Garðarsson, Björn Hlynur Haraldsson og Mikael Torfason unnu verðlaunin 2022 fyrir handritið að Verbúðinni.

Hér má lesa nánar um tilnefninguna og verðlaunin.

Ljósmynd: Lilja Jóns.