Um KMÍ
Á döfinni

13.8.2025

Anton Corbijn verður heiðursgestur á RIFF 2025

Hollenski kvikmyndaleikstjórinn og ljósmyndarinn Anton Corbijn verður meðal heiðursgesta á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík sem fram fer 25. september til 5. október. Nokkrar af kvikmyndum hans verða sýndar á hátíðinni ásamt því að hann mun taka þátt í „Spurt & svarað“ að sýningum loknum. Þá stýrir hann einnig meistaraspjalli og ræðir þar verk sín og feril.

Í tilkynningu RIFF segir að Anton Corbijn sé einn áhrifamesti ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður síðustu áratuga og hann hafi endurmótað tengsl ljósmynda, tónlistar og kvikmynda. „Hann fæddist í Hollandi árið 1955 og er hvað þekktastur fyrir hráar og persónulegar ljósmyndir af tónlistarfólki—myndir sem líkjast frekar samtali en uppstilltum portrettum. En list hans nær langt út fyrir ljósmyndina: hann hefur leikstýrt mörgum af eftirminnilegustu tónlistarmyndböndum síðustu 40 ára og þróað með sér sérstakan stíl í kvikmyndagerð þar sem myndmálið og stemningin eru í aðalhlutverki.“

Tækifæri sem ólíklegt er að bjóðist aftur hér á landi

„Það er okkur í senn mikil ánægja og gríðarlegur heiður að taka á móti jafn goðsagnakenndum listamanni og Anton Corbijn er,” segir Hrönn Marinósdóttir um komu hans á RIFF 2025. „Þarna er á ferðinni listamaður sem á ekki aðeins að baki mjög forvitnilegar og spennandi kvikmyndir síðustu 20 árin eða svo, heldur mörg af eftirminnilegustu listamannaportrettum síðustu áratuga, enda er hann einn merkasti núlifandi listamaðurinn á því sviði. Það er óhætt að segja að nálgun hans, áferð og myndmál hafi haft mótandi áhrif á dægurmenningu síðustu áratuga.”

Hrönn bætir því við að Corbijn haldi sig almennt til hlés og forðist sviðsljósið ef eitthvað er. „Það gerir heimsókn hans enn ánægjulegri og eftirsóknarverðari, og það er að sjálfsögðu von okkar að sem flestir grípi tækifærið og sæki þær sýningar og viðburði sem hátíðin mun bjóða upp á í tengslum við komu hans. Þetta er svo sannarlega tækifæri sem ólíklegt er að bjóðist aftur hér á landi.”

Skurðpunktur hljóðs og mynda

Í tilkynningu RIFF segir að stíll Corbijn hafi mótast á áttunda áratugnum, þegar hann flutti til London til að komast í snertingu við síð-pönk senuna. „Þar vakti hann fljótt athygli með djúpum og kyrrlátum myndum af Joy Division (fyrsta verkefni hans með tónlistarfólki), Siouxsie Sioux og Echo & the Bunnymen. Frægustu ljósmyndir hans af Ian heitnum Curtis, söngvara fyrstnefndu sveitarinnar hér að framan, voru teknar utan sviðs, í kyrrð sem gaf í senn til kynna einsemd og undirliggjandi spennu.“

Fyrsta kvikmynd hans, Control, kom út 2007 og fjallar um líf, list og dauða áðurnefnds Ian Curtis „Myndin var rómuð fyrir næmni, trega og fágun — ekki bara sem tónlistarmynd, heldur sem hugleiðing um sköpun, frægð og frama í skugga þunglyndis.“

Myndin verður sýnd á komandi RIFF hátíð, auk heimildamyndarinnar Squaring the Circle (2022), um breska hönnunarteymið Hipgnosis sem á heiðurinn af mörgum þekktustu plötuumslögum áttunda áratugarins.

„Corbijn nálgast þá sögu sem jafningi frekar en spyrill, og fangar með virðingu hvernig myndheimur tónlistarinnar hefur átt sinn þátt í að móta hljóðheiminn. Myndin er enn ein birtingarmynd ástríðu Corbijns fyrir skurðpunkti hljóðs og myndar,“ segir í tilkynningu.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík fer fram sem fyrr segir frá 25.sept. til 5.okt. og verður dagskráin í heild auglýst fljótlega.