Um KMÍ
Á döfinni

27.4.2021

Árni Ólafur Ásgeirsson leikstjóri er látinn

Mynd: David Oldfield

Árni Ólafur Ásgeirsson kvikmyndaleikstjóri er látinn eftir alvarleg veikindi, en Klapptré greindi frá andláti hans í gærkvöldi. Árni Óli, eins og hann var oftast kallaður, fæddist í Reykjavík árið 1972. Hann útskrifaðist í kvikmyndaleikstjórn frá hinum virta kvikmyndaskóla í Lodz í Póllandi árið 2001.

Hann átti að baki farsælan feril í kvikmyndagreininni, en stuttmynd hans, Anna‘s dag frá 2003, var meðal annars verðlaunuð á hinni virtu alþjóðlegu stuttmyndahátíð í Clermont-Ferrand. Árni Óli var einn handritshöfunda kvikmyndarinnar Maður eins og ég frá 2002 og fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd, Blóðbönd, var frumsýnd árið 2006. Myndin segir frá hamingjusamlega giftum augnlækni sem á von á sínu öðru barni þegar hann uppgötvar að hann er ekki líffræðilegur faðir elsta barns síns. Myndin var sýnd í Discovery hluta alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Toronto og hlaut hún fimm tilnefningar til Edduverðlauna, ásamt því að vera tilnefnd til Amanda, norrænu kvikmyndaverðlaunanna.

Önnur kvikmynd Árna Óla, Brim, var sýnd árið 2010 og var hún tilnefnd til 11 Edduverðlauna og hlaut sex Eddur, þar á meðal sem kvikmynd ársins. Brim var gerð í samvinnu við leikhópinn Vesturport og segir frá sundurleitri togaraáhöfn sem mætir örlögum sínum í sjóferð sem tekur óvænta stefnu. Myndin var einnig tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og sýnd á fjölda hátíða erlendis.

Árni Óli leikstýrði einnig teiknimyndinni Lói – þú flýgur aldrei einn frá árinu 2018 sem ferðaðist víða um heim á alþjóðlegum hátíðum. Myndin fjallar um lóuungann Lóa sem er ófleygur þegar haustið kemur og farfuglarnir fljúga suður á bóginn. Hann þarf að lifa af harðan veturinn og kljást við grimma óvini til að eiga möguleika á að sameinast aftur ástvinum sínum að vori. Árni Óli vann að framhaldsmynd teiknimyndarinnar, Lóa – Goðsögn vindanna, sem hlotið hefur handritsstyrk úr Kvikmyndasjóði.

Árni Óli hafði nýlokið vinnslu sinnar fjórðu kvikmyndar Wolka sem er væntanleg síðar á þessu ári. Myndin segir frá konu sem þarf að grípa til örþrifaráða er hún losnar úr 15 ára fangelsisvist í pólsku fangelsi. Wolka er íslensk/pólsk samframleiðsla og er framleidd af Sagafilm. Til stóð að Árni Óli hæfi tökur á þáttaröð í Póllandi fyrir Netflix, þar sem hann skrifaði handritið ásamt Ottó Geir Borg og fleirum.

Hann kenndi einnig kvikmyndaleik við Listaháskóla Íslands og starfaði við gerð sjónvarpsauglýsinga á erlendum vettvangi.

Árni Óli skilur eftir sig eiginkonu sína Marta Luiza Macuga, leikmyndahönnuð, son þeirra Iwo Egill Macuga Árnason, móður sína Hafdísi Árnadóttur og bróðir sinn Ingólf Ásgeirsson. Fjölskyldu og aðstandendum Árna Óla eru færðar innilegar samúðarkveðjur.