Um KMÍ
Á döfinni
  • Hlynur Pálmason ásamt aðalleikurum Ástarinnar sem eftir er. Mynd:Andreas Rentz / Staff

19.5.2025

Ástin sem eftir er fær einstakar móttökur í Cannes

Hlynur Pálmason frumsýndi nýjustu kvikmynd sína, Ástina sem eftir er, á kvikmyndahátíðinni í Cannes í gær, 18. maí. Myndinni var einstaklega vel tekið í salnum, þar sem áhorfendur risu úr sætum til að klappa fyrir Hlyni og aðalleikurum myndarinnar, þeim Sögu Garðarsdóttur, Sverri Guðnasyni, Grími, Þorgils og Ídu Mekkín Hlynsbörnum. Myndin er sýnd í flokknum Cannes Premiere, fyrst íslenskra kvikmynda.

Þetta er í annað sinn sem verk eftir Hlyn er valið í aðaldagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes. Aðeins þrjú ár hafa liðið síðan kvikmyndin Volaða Land var sýnd í Un Certain Regard-flokki hátíðarinnar. Áður hafði Hlynur heimsfrumsýnt myndina Hvítan, hvítan dag í hliðardagskrá hennar, Semaine de la Critique 2019.

Í Ástinni sem eftir er kveður við annan tón hjá leikstjóranum, eins og bent er á í viðtali sem birt er á vef kvikmyndahátíðarinnar í Cannes. Myndin fangar ár í lífi fjölskyldu þar sem foreldrarnir stíga fyrstu skrefin í átt að skilnaði. Á fjórum árstíðum fylgjumst við með hversdagslífi fjölskyldumeðlima í gegnum óvænt, fyndin og hjartnæm augnablik sem endurspegla hið breytta samband þeirra.

„Þetta er mynd um hversdaginn, um það sem er kunnuglegt og það sem er skrýtið og draumkennt. Ég vildi að hlutir myndu flæða í stöðugri hreyfingu, líkt og vatn,“ segir Hlynur. Myndin er innblásin af því sem stendur leikstjóranum næst; börnunum hans, garðinum og náttúrunni. Ætlunin var að myndin yrði ekki íburðarmikil, hann vildi vinna með litlu teymi í öruggu og frjálslegu umhverfi.

„Ég vildi eitthvað einfalt, hreint og beint, til að beisla orku myndarinnar og ná jafnvægi milli hins fjarstæðukennda og broslega, fegurðar og ljótleika, fjölskyldu og náttúru, barna og foreldra...“

Anton Máni Svansson, hjá STILL VIVID, framleiðir myndina ásamt ​​Katrin Pors hjá danska framleiðslufyrirtækinu Snowglobe. Með helstu hlutverk fara Saga Garðarsdóttir, Sverrir Guðnason, Ída Mekkín Hlynsdóttir, Þorgils Hlynsson, Grímur Hlynsson, Ingvar Sigurðsson og Anders Mossling.


Forsíðuljósmynd: Andreas Rentz / Staff. Getty Images