Um KMÍ
Á döfinni

14.8.2025

Ástin sem eftir er frumsýnd á Íslandi

Nýjasta kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Ástin sem eftir er, verður frumsýnd á Íslandi 14. ágúst 2025.

Myndin fangar ár í lífi fjölskyldu þar sem foreldrarnir stíga fyrstu skrefin í átt að skilnaði. Á fjórum árstíðum fylgjumst við með hversdagslífi fjölskyldumeðlima í gegnum óvænt, fyndin og hjartnæm augnablik sem endurspegla hið breytta samband þeirra.

Ástin sem eftir er var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí við góðar móttökur áhorfenda og gagnrýnenda. Í aðalhlutverkum eru Saga Garðarsdóttir og Sverrir Guðnason. Aðrir leikarar eru Ída Mekkín Hlynsdóttir, Þorgils og Grímur Hlynssynir, Anders Mossling, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Stephan Stephensen, Kristján Guðmundsson, Halldór Laxness Halldórsson og Ingvar E. Sigurðsson.

Kvikmyndin er framleidd af íslenska framleiðslufyrirtækinu STILL VIVID í samvinnu við Snowglobe (Danmörku), HOBAB (Svíþjóð) og Maneki Films (Frakklandi).