Ástin sem eftir er og O (hringur) á stuttlista Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna
Kvikmyndin Ástin sem eftir er, í leikstjórn Hlyns Pálmasonar, og stuttmyndin O (hringur) í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar, eru á meðal mynda á stuttlista Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna, sem fer fram í 38. sinn í janúar 2026.
Ástin sem eftir er var heimsfrumsýnd í Cannes á þessu ári. Myndin fangar ár í lífi fjölskyldu þar sem foreldrarnir stíga fyrstu skrefin í átt að skilnaði. Á fjórum árstíðum fylgjumst við með hversdagslífi fjölskyldumeðlima í gegnum óvænt, fyndin og hjartnæm augnablik sem endurspegla hið breytta samband þeirra.
O (hringur) var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Feneyjum haustið 2024. Myndin er ljóðræn frásögn af manni sem vill standa sig en hans helsta hindrun er hann sjálfur.
Tilkynnt verður um tilnefningar í flokki kvikmynda í fullri lengd á kvikmyndahátíðinni í Sevilla 18. nóvember. Tilnefningar í flokki stuttmynda verða kynntar 31. október á SEMINCI – alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Valladolid.
Evrópsku kvikmyndaverðlaunin eru afhent annað hvert ár við hátíðlega athöfn í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu. Í þetta sinn fer hátíðin fram í Berlín, 16. janúar 2026.