Um KMÍ
Á döfinni

6.8.2025

Ástinni boðið til New York og Toronto

Nýjasta kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Ástin sem eftir er, heldur áfram velgengni sinni á alþjóðlegum vettvangi. Í gær var tilkynnt að hún hefur verið valin til sýninga á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto (TIFF) og New York Film Festival (NYFF). Myndin verður frumsýnd á Íslandi í næstu viku, 14. ágúst.

Kvikmyndin verður sýnd í Centrepiece-flokki TIFF, sem fram fer dagana 4.–14. september. Þetta er í þriðja sinn sem kvikmynd eftir Hlyn er boðið á TIFF, stærstu kvikmyndahátíð Kanada. Hvítur, hvítur dagur, var sýnd á hátíðinni 2019 og Volaða land 2022. Ástin sem eftir er verður sýnd í aðalvali NYFF, sem verður haldin í New York 26. september til 13. október.

Ástin sem eftir er var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí og hlaut þar afar góðar viðtökur. Síðan þá hefur hún einnig verið sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary í Tékklandi og á Cinehill-hátíðinni í Króatíu, þar sem hún hlaut aðalverðlaun. 

Myndin segir ljúfsára sögu fjölskyldu sem reynir að fóta sig í breyttum aðstæðum eftir skilnað foreldranna. Sagan spannar eitt ár og leiðir áhorfendur í gegnum einlæg, fyndin og oft hjartnæm augnablik.

Í aðalhlutverkum eru Saga Garðarsdóttir og Sverrir Guðnason. Aðrir leikarar eru Ída Mekkín Hlynsdóttir, Þorgils og Grímur Hlynssynir, Anders Mossling, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Stephan Stephensen, Kristján Guðmundsson, Halldór Laxness Halldórsson og Ingvar E. Sigurðsson.

Kvikmyndin er framleidd af íslenska framleiðslufyrirtækinu STILL VIVID í samvinnu við Snowglobe (Danmörku), HOBAB (Svíþjóð) og Maneki Films (Frakklandi). 

Myndin er styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands. Meðal annarra stuðningsaðila eru Menningar- og viðskiptaráðuneytið, RÚV, Hornafjarðarbær, og fjölmargar norrænar og evrópskar kvikmyndastofnanir.