Aukafjárveitingar til Kvikmyndasjóðs í frumvörpum til fjáraukalaga 2024 og fjárlaga 2025
Í frumvarpi til fjáraukalaga 2024 er annars vegar að finna tillögu að aukafjárveitingu til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar, að upphæð 900 milljóna króna, og hins vegar tillögu að aukafjárveitingu í Kvikmyndasjóð, að upphæð 100 milljóna króna. Munu því heildarframlög til sjóðsins í ár nema 1.214,3 m.kr.
Þá standa einnig yfir umræður um frumvarp til fjárlaga 2025. Þar er tillaga frá fjárlaganefnd um 300 milljóna króna aukafjárveitingu í Kvikmyndasjóð á næsta ári en munu þá áætluð framlög til sjóðsins nema 1.323,1 m.kr. Þá haldast framlög til endurgreiðslukerfis í kvikmyndagerð fyrir næsta ár óbreytt frá framlögðu fjárlagafrumvarpi fyrr í haust eða 6.063,0 m.kr.
Þar sem talsvert hefur verið haft samband við Kvikmyndamiðstöð vegna skiptingu fjárveitinga hjá sjóðnum fyrir árið 2025 vill miðstöðin taka fram að skipting framlagsins niður á verkefni sjóðsins mun birtast á næstu dögum þegar að frumvarp til fjárlaga árið 2025 hefur verið samþykkt.