Band eftir Álfrúnu Örnólfsdóttur valin til þátttöku á Hot Docs
Band eftir Álfrúnu Örnólfsdóttur hefur verið valin til þátttöku í The Changing Face of Europe hluta Hot Docs heimildamyndahátíðarinnar í Toronto í Kanada. Hátíðin er ein stærsta sinnar tegundar í heiminum og fer fram dagana 28. apríl - 8. maí. European Film Promotion (EFP) stendur fyrir The Changing Face of Europe dagskránni, sem sýnir tíu evrópskar heimildamyndir valdar af skipuleggjundum hátíðarinnar.
Band verður heimsfrumsýnd á hátíðinni og er meiksaga hljómsveitar sem á líklega ekki eftir að meika það og er í raun ekki hljómsveit.
Álfrún skrifaði handritið og leikstýrði, en framleiðendur myndarinnar eru Heather Millard og Þórður Jónsson hjá Compass Films. Með aðalhlutverk fara Álfrún, Hrefna Lind Lárusdóttir og Saga Sigurðardóttir.
Allar nánari upplýsingar um Hot Docs má finna á heimasíðu hátíðarinnar.