Um KMÍ
Á döfinni

1.6.2021

Þrjú kvikmyndatengd verkefni hljóta styrk úr Barnamenningarsjóði Íslands

Þann 28. maí síðastliðinn var tilkynnt um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands, sem nú veitir styrki til barnamenningar í þriðja sinn frá stofnun sjóðsins. 

Þrjú kvikmyndatengd verkefni hlutu styrk úr sjóðnum þetta árið og voru það verkefnin Stelpur filma á landsbyggðinni!Heimildasmiðjan Röð og FRÍMÓ. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.

Hér fyrir neðan má sjá nánar um verkefnin:

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – kr. 7.000.000 – Stelpur filma á landsbyggðinni!

Námskeið, haldin á völdum stöðum á landsbyggðinni, sem hvetja stelpur og kynsegin ungmenni til að vera virkir þátttakendur í kvikmyndagerð. Megináhersla er lögð á að skapa öruggt rými þar sem allar skoðanir og hugmyndir eiga rétt á sér. Með öruggu rými er einnig vísað til þess allra mikilvægasta, þ.e. að hvers kyns ofbeldi eða fordómar líðast ekki, jafnframt því eru engir dómar felldir, hvorki út frá frammistöðu, kynvitund, bakgrunni, uppruna, fjárhagslegri stöðu eða öðrum breytum.

Docfest – kr. 3.000.000 Heimildasmiðjan Röð

Heimildasmiðjan Röð námsstofa þar sem farið er djúpt í ferlið sem liggur að baki gerð heimildamynda. Þátttakendum býðst að vinna í hópum yfir vetur, undir leiðsögn fagfólks, m.a. leikstjóra, klippara og tónskálds, að gerð stuttra heimildamynda sem sýndar verða almenningi sem hluti af dagskrá IceDocs heimildamyndahátíðarinnar. Á hátíðinni fá börnin tækifæri til að kynna verk sín og svara spurningum úr sal. Að lokinni hátíð verða myndirnar aðgengilegar öðrum börnum á hátíðarvef IceDocs.

Ungar kvikmyndafélag – kr. 2.500.000 – FRÍMÓ

FRÍMÓ er handritasmiðja fyrir börn á aldrinum 8 - 12 ára þar sem þau fá tækifæri til að láta sínar raddir heyrast. Fyrirfram rammi er á sögunni tengdur tilfinningalífi barna en með listsköpun og hugmyndaauðgi barnanna kemst handritið á flug og verður aðgengilegra fyrir markhópinn sjálfan. Smiðjan er í boði fyrir öll íslensk börn óháð búsetu. Verkefninu stýra faglærðar og reyndar kvikmyndagerðarkonur auk fjölskyldu- og barnasálfræðings, í samstarfi við RÚV og KMÍ.