Um KMÍ
Á döfinni

17.2.2022

Berdreymi eftir Guðmund Arnar Guðmundsson hlýtur Europa Cinemas Label verðlaunin

Kvikmyndin Berdreymi eftir Guðmund Arnar Guðmundsson hlaut Europa Cinemas Label verðlaunin sem besta evrópska myndin í Panorama flokki kvikmyndahátíðarinnar í Berlín

Þetta er í sautjánda skiptið sem Europa Cinemas veita verðlaunin í Berlín. Verðlaunin eru þýðingarmikil en Samtök Evrópska Kvikmyndahúsa munu styðja við dreifingu Berdreymi um alla Evrópu eða í allt að 1143 kvikmyndahúsum í 44 löndum sem eru hluti af samtökunum.

Dómnefndin segir meðal annars að „Berdreymi sé ódæmigerð fyrir íslenska kvikmynd, engin stórbrotin náttúra heldur hrátt borgarlandslag sem er kvikmyndað á sérlega sterkan og skapandi máta. Sagan sé vissulega hörð sýn á hóp unglingspilta en að það sé hlýjan samhliða ofbeldinu sem gerir myndina einstaka. Berdreymi er bókstaflega kvikmynd sem krefjist þess að verða séð af áhorfendum.“ Anton Máni Svansson framleiðandi Berdreymi tók á móti verðlaunum fyrir hönd myndarinnar, sem veitt voru í Berlín þann 16. febrúar.

110222_BD_0535photo_Brigitte-Dummer

Berdreymi var heimsfrumsýnd á Berlinale föstudaginn 11. febrúar og hefur fengið góðar viðtökur bæði frá áhorfendum og gagnrýnendum. Gagngrýnandi Screen Daily segir myndina áhrifamikla og hrósar sérstaklega ungu leikurunum. Gagngrýnandi Upcoming segir „galdur myndarinnar sé í framkvæmdinni sem sé bæði fersk og sannfærandi.“ Gagngrýnandi Filmuforia segir að „einstakur ljóðrænn stíl Guðmundar setji hann í hóp mest spennandi listrænna leikstjóra starfandi í dag.“  

Trailer

Berdreymi segir frá Adda, unglingsstrák í Reykjavík sem alinn er upp af móður með skyggnigáfu. Einn daginn ákveður Addi að taka eineltisfórnarlamb undir sinn verndarvæng og inn í vinahóp slagsmálahunda. Án eftirlits, leika strákarnir sér að valdbeitingu og ofbeldi en kynnast einnig djúpri vináttu. Þegar hegðun strákana stigmagnast yfir í lífshættulega atburði, fer Addi að upplifa eigin skynjanir. Mun innsæi hans beina vinunum á öruggari braut eða munu strákarnir sökkva lengra inn í heim ofbeldis?

Guðmundur Arnar skrifaði handritið og leikstýrði og með helstu hlutverk fara ungstirnin Birgir Dagur Bjarkason, Áskell Einar Pálmason, Viktor Benóný Benediktsson, og Snorri Rafn Frímannsson, ásamt Anítu Briem, Ólaf Darra Ólafssyni og Ísgerði Gunnarsdóttur. Framleiðandi myndarinnar er Anton Máni Svansson fyrir hönd Join Motion Pictures, en myndin er samstarfsverkefni fimm landa með meðframleiðendur frá Danmörku, Svíþjóð, Hollandi og Tékklandi.


Hér má sjá umsögn dómnefndar í heild sinni: „Guðmundsson's second feature is certainly a harsh look at a bunch of teenage boys struggling to find a way forward despite estrangement from their dysfunctional families. But it is the warmth alongside the violence that makes this a film that demands to be seen.

The audience is right with the boys as they deal with their emotions and friendships, but out of this toxic masculinity, Guðmundsson manages to find hope and lyricism, even using magical realism at times to create a very special atmosphere.

It is set in Iceland, but this is atypical of films from there – no sweeping landscapes this time but a series of industrial and urban locations captured with superb and inventive camerawork. Guðmundsson skilfully manages to achieve powerful performances from his young and inexperienced cast.

The themes explored are universal, and this film deserves to find its audience across Europe. The Europa Cinemas Label will help deliver that audience, we very much hope.“