Um KMÍ
Á döfinni

19.9.2022

Berdreymi framlag Íslands til Óskarsverðlauna

Framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2023 er Berdreymi, eftir Guðmund Arnar Guðmundsson. Þetta var tilkynnt á Eddunni, verðlaunahátíð Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar, í gær, 18. september.

Framlagið var valið af dómnefnd sem skipuð er aðilum úr stjórnum fagfélaga í kvikmyndaiðnaði auk fulltrúa frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, kvikmyndahúsa og kvikmyndagagnrýnenda.

Í umsögn dómnefndar segir:

Hér er á ferðinni áleitin saga sem er sett fram af látleysi og yfirvegun og leyfir sér að ganga nálægt áhorfanda. Einstök frammistaða og hugrekki ungra leikara á sérstakt lof skilið fyrir stóran þátt sinn í áhrifamætti verksins. Tónn, andi og tilfinning frásagnarinnar nýtir möguleika formsins á eftirtektarverðan hátt sem skilar sér í hrárri og sterkri kvikmynda upplifun.