Um KMÍ
Á döfinni

26.8.2022

Berdreymi seld til Bretlands

Kvikmyndin Berdreymi, eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, hefur verið seld til Bretlands. Kvikmyndaritið Variety segir frá , en New Europe Film Sales annast alþjóðlega sölu myndarinnar.

Sýningarréttur myndarinnar hafði þegar verið seldur til Bandaríkjanna, Ungverjalands, Benelux, Þýskalands og Austurríkis, Spánar og landa Mið- og austur-Evrópu. Mikill meðbyr er með myndinni en hún hefur unnið til fjölda verðlauna síðan hún var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á þessu ári.

New Europe fer fyrir sölu fleiri íslenskra mynda, Volaða land og Dýrið þar á meðal. Samkvæmt frétt Variety er von á að Volaða land verði seld til Bandaríkjanna. Myndin hitti rækilega í markið hjá dreifingaraðilum þegar hún var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí, og var sýningarrétturinn þar seldur til Englands, Írlands, Balkanlanda, Spánar, Ungverjalands og Grikklands. Fyrir hátíðina hafði hún verið seld til Frakklands, Hollands, Póllands, Ástralíu og Nýja Sjálands.