Um KMÍ
Á döfinni

22.6.2022

Berdreymi vinnur til verðlauna á þremur hátíðum

Kvikmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar, Berdreymi, var á dögunum sýnd á þremur kvikmyndahátíðum, í Slóveníu, Mexíkó og á Ítalíu, þar sem hún vann til verðlauna á hverri hátíð.

Leikhópur myndarinnar vann aðalverðlaun á Actors Film Festival-hátíðinni í Kranj í Slóveníu, þar sem framúrskarandi leikarar fá viðurkenningu fyrir frammistöðu í kvikmyndum og sjónvarpsefni.

Í umsögn dómnefndar segir að leikararnir ungu, Birgir Dagur Bjarkason, Áskell Einar Pálmason, Viktor Benóný Benediktsson og Snorri Rafn Frímannsson, dragi áhorfendur inn í sögu myndarinnar frá fyrsta ramma með tápmikilli frammistöðu. „Stærstu stjörnur geta aðeins dreymt um að valda hlutverki eins vel og leikhópur myndarinnar gerir. Hæfileikarnir eru slíkir að hópurinn ætti að leggja leiklistina fyrir sig til frambúðar.“

Viktori Benóný Benediktssyni þótti vænt um verðlaunin sem leikhópurinn fékk í Slóveníu. Ljósmynd: Benedikt Steinar Benónýsson.

Leikararnir fengu að auki viðurkenningu á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Guadalajara í Mexíkó, í Maguey-verðlaunaflokki hátíðarinnar.

Á Ítalíu hlaut hún gagnrýnendaverðlaun Biografilm-hátíðarinnar í flokkinum Europe Beyond Borders.