Um KMÍ
Á döfinni

6.3.2018

Bergmál valin á Cannes Atelier

Bergmál, nýjasta kvikmynd Rúnars Rúnarssonar sem er nú í þróun, er eitt af fimmtán verkefnum sem hefur verið valið til þátttöku á Cannes Atelier. Cannes Atelier er vettvangur fyrir leikstjóra og framleiðendur verkefnanna sem miðar að því að hjálpa því að taka næstu skref í þá átt að koma verkefninu af stað, t.a.m. með því að standa fyrir fundum með mögulegum fjármögnunaraðilum. 

Cannes Atelier er partur af aðalhluta Cannes kvikmyndahátíðarinnar og mun fara fram frá 10. – 16. maí. Er þetta í fyrsta skipti sem íslensk mynd tekur þátt í þessum hluta hátíðarinnar. 

Cannes kvikmyndahátíðin er Rúnari að góðu kunn þar sem myndir hans hafa þrisvar verið valdar til keppni. Stuttmyndin Smáfuglar var valin til þátttöku í aðalkeppni stuttmynda árið 2008, stuttmyndin Anna var valin til þátttöku í Director‘s Fortnight keppni hátíðarinnar árið 2009 og kvikmyndin Eldfjall var sömuleiðis valin til þátttöku í Director‘s Fortnight árið 2011.

Rúnar byrjaði að láta að sér kveða innan kvikmyndaheimsins þegar stuttmyndin Síðasti bærinn var tilnefnd til Óskarverðlauna árið 2006. Síðan þá hafa myndir eftir hann hlotið yfir eitthundrað alþjóðleg kvikmyndaverðlaun og verið sýndar á helstu kvikmyndahátíðum heimsins.

Bergmál er ljóðræn kvikmynd, um íslenskt samfélag, sem byrjar á aðventunni í aðdraganda jóla og endar á nýársdag.

Myndin er framleidd af Nimbus Ísland, Pegasus, Nimbus Films og Halibut.