Um KMÍ
Á döfinni

26.5.2023

Besta hugsanlega byrjun sem stuttmynd getur fengið

Stuttmynd Gunnar Martinsdóttur Schlüter, Fár, var á meðal ríflega 4000 stuttmynda sem sóttust eftir því að verða sýndar í aðaldagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í ár. Þar er hún sýnd ásamt 10 öðrum verkum sem keppa um gullpálmann í flokki stuttmynda á þessari virtu kvikmyndahátíð.

Framleiðendur myndarinnar, Sara Nassim og Rúnar Ingi Einarsson segja að þetta sé besta hugsanlega byrjun sem stuttmynd getur fengið. „Að byrja hér færir Gunni aukið traust fyrir næsta verkefni, hvað svo sem hún vill gera. Það eru alltaf peningar í húfi og áhætta. Þetta þýðir að Gunnur fær traust til að forma og setja fram verk, sem hún gerir listilega vel.“

Gunnur ásamt framleiðendum Fárs, Söru Nassim og Rúnari Inga Einarssyni.

Fljótlega eftir að tilkynnt var að myndin yrði sýnd í aðaldagskrá Cannes gekk fransk-þýska sölufyrirtækið Salaud Morisset til liðs við þau. Fyrirtækið hyggst koma myndinni í dreifingu um allan heim og er Gunnur þar í góðum félagsskap, en það hefur komið að dreifingu stuttmynda eftir Yorgos Lanthimos og Jonathan Glazer, sem frumsýndi einmitt sína nýjustu kvikmynd í aðalkeppni Cannes í ár. „Við treystum þeim og höfum góða tilfinningu fyrir þessu,“ segir Sara. „Sem er frábært. Maður vill auðvitað að sem flestir sjái myndina. Þannig að næstu skref er dreifing á heimsvísu, í sjónvarpi og kvikmyndahús. Síðan taka við aðrar kvikmyndahátíðir.“

Skýr sýn frá upphafi til enda

Gunnur er leikstjóri, handritshöfundur og aðalleikkona myndarinnar. Hún segir að það hafi verið áskorun fólgin í því að ná dýpt í bæði leikstjórn og leiknum. „Þá naut ég hjálpar Rúnars, sem hefur bakgrunn í leikstjórn. „Við gátum því haldið áfram okkar samstarfi á setti og haldið trausti okkar á milli. Það er áskorun að spennast ekki of mikið upp, halda fókus á báðum stöðum meðan maður stekkur á milli þessara ólíku hlutverka. Handritsskrifin voru svo annar kafli.“

Þar kom til góða ólíkur bakgrunnur þeirra þriggja. Gunnur er menntuð í leiklist og leikstjórn í leikhúsi, meðan Rúnar Ingi hefur bakgrunn í leikstjórn kvikmyndaverka og Sara í þróun og framleiðslu. „Við settum okkur markmið, einhverja línu, um að við ætluðum ekki að gefa neinn afslátt. Við erum öll mjög þrjósk en það varð ávinningur af því.“

„Þetta blómstraði ekki síst í eftirvinnslunni,“ segir Rúnar Ingi. „Gunnur hefur alltaf haft skýra sýn á hvað hún vill gera og hvert hún vill fara með þetta. Það hefur verið mjög gaman að fá þennan tíma til þess að nostra við allt sem snýr að frágangi.“

Samfélag á milli grimmdar og sakleysis

Fár varð til út frá atviki sem henti Gunni sjálfa, þar sem hún varð vitni að því þegar fugl flaug á glugga. „Ég fór að hugsa hvernig ég gæti speglað þetta atvik í samtímanum í dag. Ég fór að velta fyrir mér hvernig nútímamanneskjan, sem byggir sér glerbyggingar, hugsar í grunninn frekar línulega um það hvernig við tökumst á við náttúruna, sérstaklega í hinum vestræna heimi.”

Myndin hefst þar sem þrír samstarfsmenn sitja á kaffihúsi á fundi þegar mávur flýgur á gluggann beint fyrir framan þau. Atburðurinn verður til þess að aðalpersónan á erfitt með að einbeita sér að efni fundarins, á meðan kaffihúsagestirnir og kollegar hennar kippa sér lítið upp við það sem hefur gerst. Á meðan berst mávurinn fyrir lífi sínu fyrir utan gluggann.

Gunnur varði sjö sumrum í sveit og kynntist þar handtökum bænda ef þurfti að aflífa dýr til að lina þjáningu þess. „Ég fór að velta fyrir mér hvernig nútímamanneskja tekst á við þessar aðstæður og bjó til þessa persónu sem situr þarna á kaffihúsinu og er föst inn í þessu línulega og kassalaga ásamt samborgurum sínum. Hún tekur skrefið út og reynir sitt besta, með ekkert svo auðveldum afleiðingum.“

Þegar hún ákveður að taka af skarið svífur á hana hópur barna, sem skilja ekki hvers vegna þurfi að drepa fuglinn til að lina þjáningar hans. En á sama tíma eru þau forvitin og vilja taka þátt. „Þau lenda þarna fyrir miðju,“ segir Sara Nassim, framleiðandi. „Þau eru saklaus í grunninn, en það er samfélagið sem býr til grimmd í okkur. Þau rokka þarna á milli, vita ekki hvort þau séu enn saklaus eða hvort grimmdin sé komin fram.“

„Ég mundi kalla þetta mannlega, eða eðlislæga grimmd,“ bætir Gunnur við. „Börnin eru hið hrekklausa og þau eru að læra á hinar samfélagslegu reglur, hvað má og hvað má ekki, á sama tíma kemur eðlisávísunin tærust fram hjá þeim.“