Um KMÍ
Á döfinni

30.3.2023

Bransadagar á Stockfish: Kvikmyndir á Íslandi – hvað um okkur?

Kvikmynda- og bransahátíðin Stockfish hófst 23. mars og stendur yfir til 2. apríl. Samhliða sýningum á fjölda nýrra kvikmynda hafa farið fram ýmsir viðburðir, kynningar og erindi fyrir fagfólk í kvikmyndagerð, undir merkjum Bransadaga.

Föstudaginn 31. mars fer fram viðburður í Grósku þar sem farið er yfir helstu fjármögnunarmöguleika kvikmynda og sjónvarpsefnis á Íslandi auk kynningar á möguleikum í samframleiðslu.

Viðburðurinn heitir „Kvikmyndir á Íslandi – hvað um okkur?“ og fer fram í samstarfi Stockfish, Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Film in Iceland og sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi.

Ókeypis er á viðburðinn en þörf er á skráningu.

Dagskráin hefst klukkan 11:00 í Grósku og samanstendur af fimm liðum:

Kvikmyndamiðstöð Íslands
Gísli Snær Erlingsson, sem tekur við stöðu forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands í apríl, kynnir sig og Sigurrós Hilmarsdóttir, framleiðslustjóri, veitir kynningu á umsóknarkerfi miðstöðvarinnar.

Ísland, Evrópski kvikmyndasjóðurinn og Norræni sjónvarps-og kvikmyndasjóðurinn
Farið yfir samframleiðslumöguleika íslenskra kvikmynda og sjónvarpsefnis. Stutt kynning á Evrópska kvikmyndasjóðnum (Eurimages) og Evrópusamningnum (European Convention) sem og kynning á Norræna sjónvarps-og kvikmyndasjóðnum. Báðir þessir sjóðir hafa veitt íslensku verkefnum verulegan fjárstuðning í gegn um árin. Anna María Karlsdóttir, fulltrúi Íslands í Eurimage, kynnir.

Einar Hansen Tómasson kynnir Film in Iceland
Film in Iceland hefur það að meginmarkmiði að kynna Ísland sem tökustað fyrir erlendar kvikmyndir og sjónvarpsefni sem og þann ávinning sem framleiðslan getur haft af 35% endurgreiðslu af öllum þeim kostnaði sem fellur til við framleiðsluna á Íslandi.

Film in Iceland er hluti af Íslandsstofu, sem rekin er af hinu opinbera og einkaaðilum, og hefur það markmið að auka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og örva hagvöxt.

Kynning á upptökum á Íslandi
Upptökur á Íslandi er átaksverkefni á vegum ÚTÓN, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar ásamt Utanríkisráðuneytinu og Tónlistarborgin Reykjavík. Verkefnið er styrkt af Menningar og viðskiptaráðuneytinu. Leifur Björnsson, frá ÚTÓN, kynnir.

Case Studies
Framleiðendurnir Klaudia Smieja-Rostworoska (Madants, Póllandi) og Grímar Jónsson (Netop Films, Ísland) ræða samframleiðsu og önnur áhugaverð mál. Wendy Mitchell kynnir.