Um KMÍ
Á döfinni

30.9.2021

Bransadagar RIFF fara fram dagana 6. - 10. október

RIFF kynnir fjölbreytta dagskrá Bransadaga, sem verða haldnir 6. - 10. október, 2021. Dagskráin leiðir saman virta fagmenn og rísandi stjörnur úr bransanum í áhugaverðri röð fyrirlestra, viðburða og pallborðsumræðna.

Erlendir fagmenn úr heimi kvikmyndanna á borð við Trine Dyrholm, Joachim Trier og Mia Hansen-Løve munu taka þátt í Meistaraspjalli á Bransadögum RIFF. Framleiðsludagur býður upp á röð pallborðsumræðna sem stjórnað verður af bransadrottningunni Wendy Mitchell. Meðal þátttakenda í pallborðsumræðum verða Baltasar Kormákur, Ragnheiður Erlendsdóttir, Erik Glijnis, og Jón Hammer.

Verk í vinnslu mun ljá röddum smáþjóða raust sína þetta árið og fjalla um verkefni frá Grænlandi og Færeyjum. Verk í vinnslu mun sýna myndbrot úr útkomnum og óútkomnum verkefnum á borð við Vitjanir eftir Evu Sigurðardóttur, framleiðendur eru Hörður Rúnarsson og Arnbjörg Hafliðadóttir og Abbababb eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur, framleiðendur Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarsson. Dagskrárstjóri RIFF, Frédéric Boyer mun stýra pallborðsumræðunum á þessum viðburði.

Tónlist í kvikmyndum verður í hávegum höfð á hátíðinni. Sigtryggur Baldursson frá ÚTON mun kynna kostina við að taka tónlist upp á Íslandi í dag og taka þátt í pallborðsumræðum ásamt öðrum þekktum fagmönnum úr
heimi kvikmyndatónlistar, Herdísi Stefánsdóttur, Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni og Atla Örvarssyni. Cheryl Kara stýrir pallborðsumræðunum að þessu sinni.
Þetta árið leggur RIFF sérstaka áherslu á hollenska kvikmyndagerð og býður upp á frábært úrval hollenskra kvikmynda á hátíðinni. Einnig verða fjölmargir nafntogaðir hollenskir kvikmyndagerðarmenn á Bransadögum og
munu þeir einnig taka virkan þátt í Framleiðsludögum.

Glæsilegum árangri íslenska tónskáldsins Hildar Guðnadóttur verður fagnað á hátíðinni. Hildur hefur hlotið fjölmörg alþjóðleg verðlaun fyrir kvikmyndatónlist, meðal annars Óskarsverðlaun, BAFTA, Academy Award og
Primetime Emmy verðlaun. Einn af hápunktum RIFF þetta árið verður sérstök hátíðarsýning á stórmyndinni Joker í Hörpunni, þar sem Kvikmyndahljómsveit Íslands, SinfoniaNord, leikur Óskarsverðlaunatónlist Hildar með myndinni, undir stjórn föður tónskáldsins, Guðna Franssonar.

Flestir viðburðirnir munu eiga sér stað í Norræna húsinu og verður dagskránni einnig streymt á netið til að leyfa þeim sem ekki eiga heimangengt að njóta þátttöku í Bransadögum.

Allar nánari upplýsingar um dagskrá Bransadaga má finna hér