Um KMÍ
Á döfinni

21.3.2024

Breyting á kvikmyndalögum samþykkt

Frumvarp menningar- og viðskiptaráðherra um breytingu á kvikmyndalögum var samþykkt á Alþingi í gær. Breytingin staðfestir meðal annars nýjan styrkjaflokk innan Kvikmyndasjóðs til lokafjármögnunar á umfangsmiklum leiknum sjónvarpsþáttaröðum.

„Þetta er fyrsti styrkur sinnar tegundar í íslenskri kvikmyndagerð og talar beint inn í kvikmyndagerð sem viðskiptagrein og listgrein. Með þessum nýja styrkjaflokki er mögulegt að fjármagna síðustu 15-20 % í framleiðslu á stórum leiknum sjónvarpsþáttum og fá hluta styrksins aftur inn til Kvikmyndasjóðs, skili verkefnið hagnaði samkvæmt settum viðmiðum styrksins,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. Nái sjónvarpsþáttaröð ekki skilgreindu hagnaðarmarki virkjast krafa um endurheimt ekki og styrkurinn er þá án skuldbindinga um endurheimt.

Nýja styrktarflokknum er ætlað að koma til móts við örari takt í þróunar- og fjármögnunarferli verkefna og gera íslenska sjónvarpsþáttaframleiðslu samkeppnishæfari í alþjóðlegu umhverfi.

Tilkynningu Menningar- og viðskiptaráðuneytis má lesa í heild á vef Stjórnarráðsins.