Um KMÍ
Á döfinni

20.12.2024

Breyting á reglugerð um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar

Þann 1. desember 2024 tók í gildi reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 450/2017, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, sem felur í sér að umsækjendum endurgreiðslna er nú heimilt að óska eftir sérstakri útborgun á endurgreiðslu að hluta, þó að framleiðslu sé ekki að öllu leyti lokið.

Þetta á við um verkefni sem hafa fengið vilyrði og að lágmarki 50% af kostnaði viðkomandi verkefnis, sem fellur til á Íslandi og er endurgreiðsluhæfur framleiðslukostnaður samkvæmt lögum nr. 43/1999, miðað við uppfærða heildarkostnaðaráætlun, er þegar fram kominn. Slíkur hluti endurgreiðslu kemur að fullu til frádráttar fullri endurgreiðslu við lokauppgjör viðkomandi verkefnis. Sömu kröfur eru gerðar til endurgreiðslu á grundvelli þessa ákvæðis og fram koma í 6. gr., eftir því sem við á og á einungis við um kostnað við framleiðslu sem hefur verið greiddur og fellur til á Íslandi. 

Sérstök skilyrði hlutaendurgreiðslu og frekari leiðbeiningar má finna á vef Kvikmyndamiðstöðvar.