Um KMÍ
Á döfinni

1.9.2025

Breytingar á meðferð umsókna í Kvikmyndasjóð: heimild til að skila gögnum á ensku

Frá byrjun september 2025 er unnt að skila meirihluta umsóknargagna inn á ensku og þarf ekki að færa rök fyrir því eins og tíðkast hefur hingað til í tengslum við umsóknir í Kvikmyndasjóð. Kvikmyndamiðstöð Íslands bætist nú í hóp kvikmyndastofnana og -sjóða á Norðurlöndum sem bjóða upp á að umsóknum sé einnig skilað inn á ensku.

Markmið breytinganna er að laga starfshætti að alþjóðlegu starfsumhverfi kvikmyndaiðnaðarins og koma til móts við þá umsækjendur sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.

Enn er gerð krafa um að eftirfarandi gögnum sé skilað á íslensku, þótt önnur umsóknargögn séu á ensku. Ástæðan fyrir því er að gögnin eru nýtt til kynningar á vef Kvikmyndamiðstöðvar og í öðru kynningarefni.

  • Kjarnasetning (logline).
  • Útdráttur.
  • Grunnhugmynd (í tilfelli sjónvarpsþáttaraða).

Kvikmyndamiðstöð mælir með því að umsóknir sem berast Kvikmyndasjóði séu á íslensku og sérstaklega í þeim tilfellum þegar aðstandendur verkefna hafa íslensku sem móðurmál.

Í reglugerð um Kvikmyndasjóð stendur meðal annars: „Verkefni sem styrkt eru af Kvikmyndasjóði skulu enn fremur vera á íslensku eða hafa aðra íslenska menningarlega skírskotun og efla framleiðsluumhverfi íslenskra kvikmynda.“