Dagurinn sem Ísland stöðvaðist sýnd í 119 kvikmyndahúsum í Þýskalandi og Austurríki
Sýningar á íslensk-bandarísku heimildamyndinni The Day Iceland Stood Still hefjast í 86 kvikmyndahúsum í Þýskalandi og 33 í Austurríki þann 13. mars. Krumma films ehf. og þýska dreifingafyrirtækið Rise and Shine tilkynntu þetta í íslenska sendiráðinu í Berlín á sérstakri kynningarsýningu þar í borg í síðustu viku.
Óvenjulega víðtæk dreifing
„Þýskaland þyrstir í jákvæðar sögur um jafnréttisbaráttu kynjanna!“ sagði Stefan Klose, forstjóri dreifingarfyrirtækisins Rise and Shine í Berlín: „Og við fögnum þessum gríðarlega áhuga á þessari merkilegu heimildamynd: Ein Tag ohne Frauen um kvennafrídaginn 1975 á Íslandi.“ Kvennafrídagurinn markaði um margt mikilvæg tímamót í baráttu íslenskra kvenna fyrir jafnrétti. Hrafnhildur Gunnarsdóttir, framleiðandi og meðhöfundur sagði að það væri mjög óvenjulegt að íslensk heimildamynd fengi svo víðtæka dreifingu í kvikmyndahúsum erlendis og kannski eina þá mestu sem um getur.
The Day Iceland Stood Still – Dagurinn sem Ísland stöðvaðist er samstarfsverkefni Krumma films ehf. og Other Noises. Pamela Hogan leikstýrir myndinni en í henni koma meðal annarra fram frú Vigdís Finnbogadóttir, Guðrún Jónsdóttir, María Sigurðardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Guðrún Erlendsdóttir, Dagný Kristjánsdóttir, Kristján Jóhann Jónsson, Lilja Ólafsdóttir, Ágústa Þorkelsdottir, Sigrún Hermannsdóttir, Guðrún Ágústsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Gerður Óskarsdóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir, Hildur Hákonardóttir, Eiríkur Guðjónsson Wulcan, Ingibjörg Pálmadóttir, Gerður Steinþórsdóttir, Annadís Greta Rúdólfsdóttir, Ruth Arelíusdóttir, Styrmir Gunnarsson og Guðni Th. Jóhannesson.
Sýnd í Bíó Paradís í tilefni af af alþjóðlegum baráttudegi kvenna
Kvikmyndin var frumsýnd 24.október á Íslandi í Bíó Paradís og verður aftur tekin til sýninga 8. mars í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna og kvennaárinu.