Um KMÍ
Á döfinni

18.10.2024

Dagurinn sem Ísland stöðvaðist verðlaunuð í Bandaríkjunum

Heimildamyndinni Dagurinn sem Ísland stöðvaðist (e. The Day that Iceland Stood Still) hefur verið vel tekið í Bandaríkjunum. Hún var frumsýnd þar í landi á The Hamptons International Film Festival í New York í byrjun október og fyrir skemmstu var hún sýnd á Mill Valley kvikmyndahátíðinni í San Francisco, þar sem hún hlaut áhorfendaverðlaun.

Myndin fjallar um kvennafrídaginn 1975 á Íslandi, þegar um 90% kvenna lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi sitt í íslensku atvinnulífi. Leikstjóri er Pamela Hogan. 

Dagurinn sem Ísland stöðvaðist er sprottin af heimsókn hennar til Íslands 2017, þegar hún var dagskrárstjóri PBS. Á ferðalaginu rak hana í rogastans eftir að hafa lesið stuttan texta um kvennaverkfallið í ferðahandbók. 

„Ég átti ekki til orð,“ segir Pamela, en móðir hennar hafði barist fyrir því að Bandaríkin samþykktu jafnréttisáætlun snemma á áttunda áratugnum, án árangurs. Hún hafði líka komist að því að Ísland stóð fremst á meðal þjóða, með mest mælanlegt jafnrétti (Gender Equality Index); „Þetta var ómótstæðileg saga til að segja.“

Myndina gerir hún í samstarfi við Hrafnhildi Gunnarsdóttur, sem rekur Krumma films.Tónlistin í myndinni er samin af Margréti Rán (Vök, GusGus) og lokalagið kemur frá Björk.

Guðrún Erlendsdóttir fyrrverandi hæstaréttadómari veitir í myndinni í fyrsta skipti viðtal um kvennafrídagin í kvikmynd. Hún minnist þess að það var sagt við hana að hún myndi aldrei fara í lögfræði: „Þú verður gift fyrir átján ára aldurinn.“ Bóndinn Ágústa Þorkelsdóttir var ósátt við að konur gætu ekki gengið í bændasamtökin og velti því fyrir sér: „Ætli ég verði að drepa eiginmanninn til þess að verða viðurkennd sem bóndi?“ Fyrrverandi forsetarnir, Vigdís Finnbogadóttir og Guðni Th. Jóhannesson, minnast dagsins og varpa ljósi á það af hverju sumir karlar kölluðu daginn „föstudaginn langa“.

Dagurinn sem Ísland stöðvaðist verður frumsýnd á Ísland í Bíó Paradís 24. október og fer svo í almennar sýningar.