Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um Kvikmyndasjóð í samráðsgátt
Menningar- og viðskiptaráðuneyti hefur kynnt til umsagnar drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um Kvikmyndasjóð .
Í tilkynningu sem birt hefur verið í samráðsgáttinni segir að með reglugerðinni sé lagður til nýr kafli sem fjalli um fyrirkomulag framleiðslustyrkja til lokafjármögnunar sjónvarpsþátta sem Kvikmyndasjóði er heimilt að veita samkvæmt frumvarpinu.
„Verkefnin sem geta sótt um í sjóðinn þurfa að höfða til breiðs hóps áhorfenda, vera á íslensku eða hafa aðra íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun og stuðla að eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar. Í reglugerðinni er nýi styrkjaflokkurinn skilgreindur og hvers konar verkefni hafa rétt á að sækja um í hann. Fjallað er í meginatriðum um hvernig verkefni og umsóknargögn eru ólík þeim sem sækja um framleiðslustyrk til grunnfjármögnunar. Þó skal tekið fram að almenn ákvæði reglugerðar um Kvikmyndasjóð gilda þar sem sérstökum ákvæðum breytingarreglugerðarinnar sleppir.“
Helstu breytingar reglugerðarinnar eru:
• Nýr kafli um fyrirkomulag framleiðslustyrkja til lokafjármögnunar
• Skilgreining leikinna sjónvarpsþáttaraða og umsækjenda sem geta sótt um framleiðslustyrki til lokafjármögnunar
• Fjallað er um þau umsókngargögn sem fylgja skulu umsóknum auk þeirra gagna sem eru nefnd í 11. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð nr. 229/2003.
• Fjallað er um fyrirkomulag mats umsókna, styrkfjárhæð og skilyrði fyrir endurheimt framleiðslustyrks til lokafjármögnunar.
Kvikmyndamiðstöð Íslands setur að auki nánari reglur um hlutfall, skilyrði og fyrirkomulag á endurheimt framleiðslustyrkja til lokafjármögnunar, hvaða tekjur mynda grundvöll til kröfu um endurheimtir og önnur nauðsynleg atriði í samningum um úthlutun styrkja.