Um KMÍ
Á döfinni

22.12.2021

Dýrið í forvali til Óskarsverðlauna 2022

Íslenska kvikmyndin Dýrið eftir Valdimar Jóhannsson er á meðal fimmtán kvikmynda sem eru í forvali og gætu fengið tilnefningu til Óskarsverðlauna í flokki alþjóðlegra kvikmynda árið 2022. Þann 8. febrúar næstkomandi verður kunngjörnt um þær fimm myndir sem tilnefndar verða til verðlaunanna. 94. Óskarsverðlaunahátíðin verður haldin þann 27. mars 2022.

Dýrið var heimsfrumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni og hlaut þar verðlaun sem frumlegasta kvikmyndin í Un Certain Regard keppninni. Síðan þá hefur myndin ferðast víða á alþjóðlegum hátíðum ásamt því að vera ein aðsóknarmesta íslenska kvikmyndin vestanhafs. Dýrið hlaut m.a. verðlaun fyrir tæknibrellur á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum, auk þess sem hún var tilnefnd til EFA European Discovery – Prix FIPRESCI verðlaunanna.  

Dýrið trailer

Dýrið fjallar um sauðfjárbændurnar Maríu og Ingvar sem búa í fögrum en afskekktum dal. Þegar dularfull vera fæðist á bóndabænum ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Vonin um nýja fjölskyldu færir þeim mikla hamingju um stund, hamingju sem verður þeim síðar að tortímingu.

Myndin er undir leikstjórn Valdimars Jóhannssonar og handrit er eftir Sjón og Valdimar. Framleiðendur myndarinnar eru Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim fyrir Go to Sheep og helstu leikarar eru Noomi Rapace, Hilmir Snær Guðnason, Björn Hlynur Haraldsson, og Ingvar E. Sigurðsson.