Dýrið og Volaða land tilnefndar til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs
Tvær kvikmyndir eftir íslenska leikstjóra eru tilnefndar til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár.
Framlag Íslands til verðlaunanna er Dýrið í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar og framlag Danmerkur er kvikmyndin Volaða land (Vanskabte land) í leikstjórn Hlyns Pálmasonar.
Fimm norrænar kvikmyndir eru tilnefndar til verðlaunanna, sem í ár fagna 20 ára afmæli. Kvikmyndirnar sem tilnefndar eru verða kynntar á þriðjudagskvöld við opnun viðburðarins „New Nordic Films“ á norsku kvikmyndahátíðinni í Haugesund í Noregi. Verðlaunahafinn verður opinberaður á verðlaunaafhendingunni í Helsingfors 1. nóvember.
Dýrið segir frá sauðfjárbændunum Maríu og Ingvari sem búa í fögrum en afskekktum dal og þegar dularfull vera fæðist á bóndabænum ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Vonin um nýja fjölskyldu færir þeim mikla hamingju um stund en verður þeim síðar að tortímingu.
Í umsögn dómnefndar um myndina segir meðal annars:
Í kvikmyndinni Dýrið sameinast íslensk sveitarómantík og frásagnahefð þjóðsagnanna. Innan þessa ramma bætir leikstjórinn Valdimar Jóhannsson við lögum af trúarlegum táknum og notar áhrif stofuleiks (kammerspiel) til að skapa einstaka frásögn af kraftaverkum, missi og hryllingi. Eftir því sem sögunni vindur fram opnast heimur þar sem mannlegur skilningur og langanir eru gerð grunsamleg og hið venjubundna líf virðist framandi.
Volaða land gerist seint á síðustu öld og fjallar um ungan danskan prest sem ferðast til afskekkts hluta Íslands til að byggja kirkju og taka ljósmyndir af íbúum. En því lengra sem hann heldur inn í óbyggðirnar þeim mun lengra fjarlægist hann ætlunarverk sitt.
Í umsögn dómnefndar um myndina segir meðal annars:
Kvikmyndin snýst um fyrstu ljósmyndina sem fannst á Íslandi og öfugt við prestinn tekst Hlyni Pálmasyni ætlunarverk sitt. Að fá fortíðina til að standa ljóslifandi með ófyrirsjáanlegri sögu og fallegum myndmáli, sem hann fangar í hlutföllunum 4:3 sem færir landslagið fram í nýju ljósi.
Í stærsta verki sínu til þessa leitar Hlynur Pálmasson fanga í fyrri myndir sínar hvað varðar umfjöllun um karlmennskuna og fagurfræðilegt næmi.
Finnland tilnefnir Sokea mies joka ei halunnut nähdä Titanicia (Maðurinn sem vildi ekki sjá Titanic), í leikstjórn Teemu Nikki. Noregur tilnefnir Verdens verste menneske (Versta manneskja í heimi), í leikstjórn Joachims Trier. Svíþjóð tilnefnir Clara Sola, í leikstjórn Mariu Camila Arias.
Frekari upplýsingar um tilnefningar til verðlaunanna má finna á vef Norðurlandaráðs .